Guðrún Jónsdóttir fær viðurkenningu Jafnréttisráðs

Á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna 10. desember veitti Jafnréttisráð árlega viðurkenningu sína fyrir framlag til jafnréttismála. Að þessu sinni var það Guðrún Jónsdóttir talskona Stígamóta sem fékk viðurkenninguna.Jafnréttisráð veitir árlega viðurkenningu fyrir mikilvægt framlag til jafnréttismála á Íslandi. Jafnréttisráð auglýsir eftir tilnefningum og getur viðurkenningin fallið einstaklingi, fyrirtæki eða félagasamtökum í skaut. Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, sem hlaut viðurkenninguna í ár, fékk fjölmargar tilnefningar og var því val Jafnréttisráðs ekki erfitt þetta árið.

Guðrún Jónsdóttir er flestum kunnug fyrir störf sín á þágu jafnréttismála á Íslandi og ber þá hæst starf hennar sem talskona Stígamóta, en því hefur hún gegnt frá árinu 1999, jafnframt því að vera ein þeirra kvenna sem stofnuðu samtökin árið 1990. Stígamót, með Guðrúnu Jónsdóttur í fararbroddi síðastliðinn áratug, hafa lyft grettistaki í málefnum fórnarlamba kynferðisofbeldis. Fyrst með því að svifta hulunni af þessum málum og setja þau á oddinn í jafnréttis-umræðunni og allar götur síðan með árangursríku starfi sem hefur gjörbreytt lífi og aðstöðu fórnarlamba kynferðislegs ofbeldis.

Guðrún hefur starfað að þessum málum í áratugi af óbilandi hugsjón og ástríðu og verið óþreytandi að leita nýrra leiða og úrræða. Það væri of langt mál að telja upp allar þær nefndir, samtök og “átök” innan lands og utan sem Guðrún hefur komið að með einum eða öðrum hætti, óhrædd að synda móti straumnum og baráttuviljinn og hugmyndaauðgin óþrjótandi.

En Guðrún hefur beitt sér í fleiri málum sem varða réttindi og stöðu kvenna. Nú síðast var hún í fararbroddi fyrir Skottunum, samtökum flestra íslenskra kvenna- samtaka og félaga, sem undirbjuggu aðgerðir 25. október og skiluðu þeim árangri að tugþúsundir íslenskra kvenna lögðu niður vinnu og þyrptust út á götur, víðs vegar um land, til að mótmæla stöðunni og bar þá hæst launamisrétti og kynbundið ofbeldi.

Réttindabarátta kúgaðra hópa hefur alltaf verið borin uppi af framsýnu hugsjónafólki sem hrífur aðra til þátttöku og fjöldinn knúið fram breytingar á samfélögum. Guðrún Jónsdóttir sómir sér vel í þessum hópi, verðugur fulltrúi máttugrar grasrótar, enda tileinkaði hún viðurkenninguna samstarfsfólki sínu á Stígamótum, Skottunum og öllum þeim fjölda kvenna sem lét “gjörningaveðrið” 25. október ekki aftra sér, heldur sameinuðust í andmælum og kröfum.
 
Guðrún Jónsdóttir er átjándi handhafi viðurkenningar Jafnréttisráðs, sem óskar henni til hamingju og vonar að viðurkenningin verði henni hvatning til áframhaldandi baráttu og dáða.