Heimilisfriður-heimsfriður

Alþjóðlegt sextán daga átak gegn kynbundnu ofbeldi fer í hönd um helgina og stendur frá 25. nóvember til 10. desember. Dagsetning átaksins var valin til að tengja á táknrænan hátt kynbundið ofbeldi og mannréttindi. Þann 25. nóvember er alþjóðlegur baráttudagur gegn ofbeldi gegn konum og 10. desember er hinn alþjóðlegi mannréttindadagur . Markmið átaksins er að knýja á um afnám alls kynbundins ofbeldis. Átakið í ár hefst með ljósagöngu Un Women 25. nóvember klukkan 19.00. Gengið verður frá Alþingishúsinu að Bíó Paradís en klukkan 20.00 verður svo kvikmyndin Tyrannosaur sýnd og allur ágóði miðasölu rennur til Un Women á Íslandi.
Á Akureyri hefst átakið 27. nóvember með kvikmyndasýningu. Dagskráin heldur svo áfram með málstofum, fyrirlestrum, bréfamaraþoni og fleiru. Ljósaganga verður haldin á Akureyri þann 6. desember frá Akureyrarkirkju að Ráðhústorgi klukkan 16.30.

Í ár er alþjóðlegt þema átaksins kynbundið ofbeldi í stríði og vopnuðum átökum. En jafnframt er sjónum beint að heimilisofbeldi því að aðeins þegar friður er á heimilum næst friður í heiminum. Hér heima er yfirskrift átaksins „Heimilisfriður – heimsfriður“.
Kynbundið ofbeldi er ein af verstu birtingarmyndum kynjamisréttis hér á landi sem og annars staðar. Hundruð kvenna leita árlega til Neyðarmóttöku, Stígamóta og Kvennaathvarfsins vegna nauðgana og annars ofbeldis af hendi karla. Kynbundið ofbeldi lýsir sér í nauðgunum, sifjaspellum, klámi, vændi, mansali, kynferðisáreitni og annars konar líkamlegu og andlegu ofbeldi gegn konum og stúlkum inni á heimilum þeirra sem utan.

Samkvæmt upplýsingum frá Kvennaathvarfinu, leitaði 671 kona þangað árið 2011. Sama ár leituðu 593 einstaklingar til Stígamóta, og frá upphafi starfsemi samtakanna til ársloka 2011 höfðu því alls 5.946 einstaklingar leitað til samtakanna vegna kynferðisofbeldis. Um það bil 13% aukning hefur verið á nýjum málum frá árinu 2010 að árslokum 2011. Í ársskýrslu sinni vekja Stígamót sérstaka athygli á því að aðeins 16,8% ofbeldis­mannanna, sem tilgreindir voru árið 2011, eru ókunnugir þeim sem þeir beita ofbeldi. Það þýðir að í rúmum 80% tilvika þekkti brotaþolinn ofbeldismanninn. Íslenskum konum stafar því helst hætta af eiginmanni, fyrrverandi eiginmanni, kærasta, föður, frænda, bróður, vini en ekki af ókunnugum.

Ofbeldi gegn konum viðgengst á Íslandi eins og annars staðar, og það viðgengst hvergi eins vel og innan veggja heimila, í skjóli upplýsingaskorts, þöggunar og aðgerðaleysis. Skömmin, sem réttilega tilheyrir gerendum, hvílir m.a. af þessum sökum sem mara á þolendum. Reynslan frá nágrannalöndum sýnir að kynbundið ofbeldi eykst á krepputímum en almennum líkamsárásum fækkar. Ofbeldi verður minna sjáanlegt en það hverfur ekki, heldur færist inn á heimilin.

Við getum ekki litið framhjá þeim staðreyndum um kynbundið ofbeldi sem blasa við okkur. Með árlegu 16 daga átaki viljum við hvetja til opinnar og hispurslausrar umræðu sem leið til vitundarvakningar meðal almennings og frekari aðgerða í kjölfarið. Dagskrá átaksins í ár er fjölbreytt og samanstendur af Ljósagöngu, tónleikum, bíósýningum, bókaupplestrum og málstofum. Við hvetjum alla til að kynna sér dagskrána nánar.