- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
UNIFEM á Íslandi bjóða í samvinnu við Kríurnar þróunarsamtök í þágu kvenna í Afríku, til fundar með namibísku konunni Vicky Bam laugardaginn 20. mars kl. 13 í Miðstöð Sameinuðu þjóðanna á Íslandi við Laugaveg 42. Vicky mun halda erindi um það hvernig er að lifa með HIV/eyðni í sunnanverðri Afríku. Vicky greindist sjálf með HIV-veiruna árið 2002 þegar að hún gekk með sitt þriðja barn. Fréttirnar voru henni mikið áfall en hún gerði sitt besta til að vera opin með smit sitt. Það sama átti ekki við eiginmann hennar sem einnig hafði greinst en hann beitti öllum ráðum til að halda því leyndu. Barn þeirra reyndist vera smitað og lést aðeins rúmlega árs gamalt. Þá var eiginmaðurinn einnig látinn. Þótt uppgjöf væri Vicky efst í huga ákvað hún að stíga fram opinberlega og greina frá sjúkdómi sínum. Þetta var á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars árið 2004. Þá var hún aðeins önnur tveggja kvenna sem höfðu talað opinberlega um smit sitt í landi þar sem um fimmtungur þjóðarinnar er smitaður með HIV-veirunni. Upp frá þessu ákvað Vicky að helga líf sitt baráttunni gegn fordómum gagnvart eyðnismituðum í landi sínu ásamt því að veita konum í hennar eigin sporum stuðning. Hún stofnaði stuðningssamtökin Mother to Mother Support Group sem m.a. hlaut styrk frá Þróunarsamvinnustofnun Íslands í Namibíu árið 2006.
Um HIV og konur í Afríku
33 milljónir manna eru smitaðir af HIV-veirunni en 95% þeirra búa í þróunarlöndum. HIV smit breiðist nú hraðar út meðal kvenna en karla í sunnanverðri Afríku en 60% smitaðra eru konur. Ungar konur eru í sérstakri hættu og eru 76% smitaðra kvenna á aldrinum 15-24 ára en það er megin barneignaskeið kvenna í Afríku. Konur eru mun viðkvæmari fyrir kynsjúkdómasmiti en karlar, sérstaklega HIV - smiti. Líffræðilegar líkur á því að konur sýkist af HIV við óvarðar samfarir eru að minnsta kosti tvisvar sinnum meiri en líkur karla. Önnur skýring á því hvers vegna konur eru viðkvæmari fyrir eyðnismiti en karlar, er félagsleg. Vegna lakari stöðu kvenna hafa þær minna um það að segja hvort notaður sé smokkur og einnig setur kynferðisofbeldi þær í hættu. Hlutfall ólæsra kvenna í heiminum er líka hærra en karla, sem kemur í veg fyrir nauðsynlega grundvallarþekkingu kvenna á smitleiðum HIV, afleiðingum þess og mögulegum forvarnaraðgerðum gagnvart sjúkdómnum.