Hvað ef þorpið er óuppalið?

„Það þarf heilt þorp til að ala upp barn, en hvað ef þorpið er óuppalið?“ spurði Brynhildur Þórarinsdóttir móðir og rithöfundur í erindi sem hún flutti á fundi á alþjóðlegum baráttudegi kvenna í Hofi á Akureyri.  Fundurinn bar yfirskriftina Uppeldi barna í anda jafnréttis og var haldinn af Jafnréttisstofu, Zontaklúbbnum Þórunni hyrnu og Zontaklúbbi Akureyrar. Rúmlega hundrað manns sóttu fundinn. Í fyrirlestri sínum skoðaði Brynhildur hvernig bleiki liturinn, markaðsöflin og við sjálf skiptum veröldinni í tvo heima, stráka- og stelpuheim. Þar sé ekki við börnin að sakast því þau læra það sem fyrir þeim er haft. Það eru í raun hinir fullorðnu sem þurfa uppeldi í anda jafnréttis.

Jón Páll Eyjólfsson faðir og leikhússtjóri lék með tilþrifum atriði úr fyrstu Star Wars myndinni. Hann heimfærði völd karlmennskunnar yfir á völd Svarthöfða og sagðist upplifa sig svolítið sem Loga geimgengil sem vildi ekki gangast við þessum völdum. Hann hvatti karlmenn og feður til að taka þá áhættu að afsala sér völdum hefðbundinnar karlmennsku þó svo þeir  vissu ekki nákvæmlega hvað tæki við. Atriðið sem Jón Páll lék svona glettilega vel má finna hér .

Erindi Brynhildar og Jóns Páls vöktu fundargesti til umhugsunar um uppeldi barna til jafnréttis og ekki síður að eigin jafnréttisuppeldi. 

Á fundinum var eftirfarandi ályktun samþykkt

Fundur Zontaklúbbanna á Akureyri og Jafnréttisstofu haldinn á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars 2016 samþykkti eftirfarandi ályktun:

Þrátt fyrir fjörutíu ára gömul lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla er raunverulegu jafnrétti enn ekki náð. Raunverulegt jafnrétti krefst hugarfarsbreytingar sem ná má með því að fræða börn og unglinga um jafnréttismál. Þar gegna foreldrar, fjölmiðlar, menningarstofnanir og skólinn mikilvægu hlutverki. 

  • Fundurinn skorar á Illuga Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra að tryggja að lögum um jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum sé framfylgt. Gera þarf kynjafræði að skylduáfanga í kennaramenntun og öllu háskólanámi.
  • Fundurinn vekur athygli á að kynjaskipting vinnumarkaðarins er einn sterkasti áhrifavaldurinn þegar kemur að launamun kynjanna. Mikilvægt er að efla náms- og starfsráðgjöf í skólum með það að markmiði að vinna gegn kynbundnum staðalmyndum um nám og störf.
  • Fundurinn hvetur ráðherra til að vinna að breyttum kynjaímyndum í fjölmiðlum og vinna gegn neikvæðum staðalmyndum um hlutverk kvenna og karla sem birtast í barna- og unglingaefni.
  • Fundurinn hvetur foreldra, afa, ömmur og alla þá sem koma að uppeldi barna til að vinna gegn heftandi staðalmyndum kynjanna sem takmarka ákvarðanir og tækifæri ungs fólks í framtíðinni.

Myndir af fundinum:


Brynhildur Þórarinsdóttir móðir, rithöfundur og dósent við Háskólann á Akureyri flutti erindið: Þegar Messi fór að spila í prinsessubleiku  - Hugleiðing um fyrirmyndir og staðalmyndir.

 

Jón Páll Eyjólfsson faðir og leikhússtjóri Menningarfélags Akureyrar flutti erindið Svarthöfði sigraður?