- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Næstu fjóra mánudaga stendur jafnréttisnefnd Háskóla Íslands fyrir fyrirlestraröð um fjölskyldumál og jafnrétti. Í fyrirlestraröðinni verður fjallað um samtvinnun fjölskyldu- og jafnréttismála frá ýmsum sjónarhornum, og hvernig karlar og konur, stofnanir og fyrirtæki geta og hafa tekist á við þann vanda sem fylgir því að taka þátt í atvinnulífinu eða mennta sig, samhliða því að eiga og byggja upp gott fjölskyldulíf. M.a. verður horft til þeirra breytinga sem átt hafa sér stað að undanförnu í efnahags-, atvinnu- og menntamálum, og hvernig slíkar breytingar geta haft áhrif á fjölskyldulíf fólks. Fyrsti fyrirlesturinn verður mánudaginn 23. febrúar milli kl. 12-13 í Norræna húsinu, og er það Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskylduráðgjafi hjá ÓB ráðgjöf, sem ríður á vaðið og mun Þorgerður Einarsdóttir, dósent í kynjafræði við Háskóla Íslands, stýra umræðum að loknu erindi Ólafs.
Hér að neðan er að finna dagskrána í heild, en allir fyrirlestrarnir verða í Norræna húsinu og hefjast kl. 12. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill. Um erindi Ólafs:
Það er eðlilegt, og nokkuð algengt, að feður séu óöruggir í sínu fyrsta foreldrahlutverki. Fræðsla er ein forsenda þess að feður geti tekist á við þetta óöryggi. Í fyrirlestrinum mun Ólafur fjalla um hversu miklu má koma til leiðar með fræðslu og hvernig hún getur styrkt feður, ekki síður en mæður, í foreldrahlutverkinu. Með fræðslu minnkar óöryggið, samband parsins styrkist og þannig leiðir fræðslan af sér betri skilyrði fyrir þroska barna í frumbernsku. Við stöndum á tímamótum, því íslenska þjóðin tekst nú á við endurskoðun þeirra gilda sem verið hafa ríkjandi undanfarin ár og áratugi, og miklu skiptir að nálgast það ferli frá sjónarhóli jafnréttis. Hluti af þeirri nálgun er að skoða hvernig hægt sé að skapa körlum betri möguleika og aukið sjálfstraust í því verkefni að verða faðir, og mun Ólafur fjalla um ýmsar hugmyndir og aðferðir sem nýst geta körlum, og einnig konum, til að takast á við foreldrahlutverkið, og að loknum fyrirlestri mun hann svara spurningum.
Hægt er að fá táknmálstúlkun og er sú þjónusta endurgjaldslaus, og við biðjum fólk um að hafa samband við Sigrúnu Eddu Theódórsdóttur (netfang: set1@hi.is, sms: 861 2626, msn myndsími: hitulkur@hotmail.com) til að panta þjónustuna.
Mánudagur 23. febrúar
Ólafur Grétar Gunnarsson, fjölskylduráðgjafi hjá ÓB ráðgjöf
Mikilvægi feðra í frumbernsku
Mánudagur 2. mars
Gyða Margrét Pétursdóttir, doktorsnemi í félags- og kynjafræði í Háskóla Íslands
Nú yfirgefur nýfrjálshyggjan stjórnar'heimilið' hvað með hin heimilin? Nokkur orð um vinnumenningu, kynjatengsl og fjölskylduábyrgð
Mánudagur 9. mars
Guðný Björk Eydal, dósent í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands
Samþætting náms og einkalífs: Fjölskyldustefna fyrir alla?
Mánudagur 16. mars
Ingólfur V. Gíslason, lektor í félagsfræði við Háskóla Íslands
Ég vildi ekki akta á þetta. Samskipti karla og kvenna í fjölskyldum nútímans