Hverjir eru utan vinnumarkaðar?

Í skýrslunni um Konur í kreppu sem kynnt var í síðustu viku kemur fram að lítið sé vitað um þá sem eru utan vinnumarkaðar hér á landi. Að beiðni Jafnréttisstofu kyngreindi Hagstofan tölur um þá sem ekki eru á vinnumarkaði. Gögnin byggja á vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands. Það verður að undirstrika að flokkunin byggist á svörum einstaklinganna sjálfra, þ.e. hvernig þeir skilgreina stöðu sína. Þá skal þess getið að tölurnar eru námundaðar þannig að þær standi á heilu hundraði. Hlutfallstölur voru reiknaðar áður en fjöldatölur voru námundaðar. Alls voru um 42.300 manns utan vinnumarkaðar árið 2010. Stærstu hóparnir eru námsmenn, eftirlaunaþegar og öryrkjar. Þannig sögðust 13.300 námsmenn, 10.900 eftirlaunaþegar og 7.800 öryrkjar vera utan vinnumarkaðar. Þessir hópar skiptast þannig að karlar voru tæplega 6.700 í röðum námsmanna og konur einnig tæplega 6.700. Kynjabil kemur í ljós þegar kemur að eftirlaunaþegum en í þeim hópi voru 4.800 karlar og 6.100 konur. Konur voru því um 56% þeirra eftirlaunaþega sem eru utan vinnumarkaðar. Vart þarf að minna á að konur ná að jafnaði nokkuð hærri aldri en karlar. Í hópi öryrkja eykst bilið því konur voru 5.300, karlar 2.500. Hlutfall kvenna var tæp 68% af hópnum sem segir okkur að mun fleiri konur í röðum öryrkja eru utan vinnumarkaðar en karlar. Þess ber að geta að mun fleiri konur eru öryrkjar en karlar sem vekur margar spurningar um ástæður og aðstæður.

Aðrir hópar sem eru utan vinnumarkaðar eru heimavinnandi fólk, konur eða karlar í fæðingarorlofi, atvinnulausir (sem ekki eru í atvinnuleit) og svo sjúklingar. Þessir hópar skiptast þannig að 1.900 manns voru heimavinnandi árið 2010, 1.800 konur og 100 karlar. Það væri fróðlegt að vita hvernig aldursdreifingin er í þessum hópi. Eru það einkum eldri konur sem eru heima eða ungar konur með lítil börn eða er mikil dreifing innan hópsins? Það kemur ekki fram en þessara tölur segja sitt um mismunandi stöðu kynjanna. Í flokknum fæðingarorlofi voru 1.200 konur en enginn karl. Hvað þýðir það? 1.700 karlar sögðust vera atvinnulausir (og ekki í atvinnuleit) og 2.000 konur. Þetta eru athyglisverðar tölur í ljósi þess að samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar eru enn mun fleiri karlar atvinnulausir en konur. Er þetta fólk sem á ekki lengur bótarétt? Á hverju lifir þessi hópur, það væri fróðlegt að vita. Í síðasta hópnum sem sérstaklega er tilgreindur eru sjúklingar. Þar eru 1.000 konur og 1.000 karlar. Enn er rétt að ítreka að tölurnar eru námundaðar. Um 2.200 manns flokkast undir annað sem ekki er skilgreint.

Í öllum samfélögum er fólk sem ekki er virkt á vinnumarkaði af ýmsum ástæðum. Nám, aldur og alvarleg fötlun eru eðlilegar og skiljanlegar ástæður en hvað um hina hópana. Þurfum við ekki að vita meira um þá? Hvað er mikið og hvað lítið í þessu samhengi? Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru þeir sem eru utan vinnumarkaðar árið 2010 19% af þjóðinni, alls um 17.000 karlar (rúmlega 41%) og 24.800 konur (tæplega 59%). Er það eðlilegt ástand hjá fremur ungri þjóð með mikinn menntunarþorsta eða hvað? Jafnréttisstofa auglýsir eftir umræðu um fólk utan vinnumarkaðar og hvers vegna mun fleiri konur eru í þeim hópi en karlar.

Kristín Ástgeirsdóttir
Framkvæmdastýra Jafnréttisstofu