Í framtíðarlandinu-Hvernig á jafnréttissamfélagið að líta út?

Jafnréttisstofa býður upp á málstofu á ráðstefnunni Vitið þér enn eða hvað?-samtal um rætur, mánudaginn 20. júní kl. 16.00-18.00 í Akureyrarakademíunni, Þórunnarstræti 99 á Akureyri. Málstofan ber heitið: Í framtíðarlandinu – hvernig á jafnréttissamfélagið að líta út?

Íslendingum er gjarnt að horfa til fortíðar, stundum til að róma forna frægð, stundum til að minnast þess hvernig formæður okkar og forfeður urðu að þreyja þorrann og góuna í harðbýlu landi elds og ísa. Það er miklu sjaldnar sem horft er til framtíðar í þeim tilgangi að spá í hvernig samfélag okkar muni og eigi að þróast, hvað þá að fólk láti sig dreyma um fyrirmyndarlandið eins og það gæti litið út. Á ráðstefnunni Vitið þér enn eða hvað? – samtal um rætur efnir Jafnréttisstofa til málstofu um framtíðarlandið, sjálft jafnréttislandið. Í málstofunni verða flutt þrjú stutt erindi en síðan verða hringborðsumræður með þátttöku allra málstofugesta. Oft var þörf en nú er nauðsyn fyrir umræður. Við lifum á tímum endurmats og það er kallað eftir siðbót og réttlæti. Þar verða bæði kyn að koma að allri umræðu og stefnumótun. Hver er staðan nú, hvert ætlum við að stefna og hvaða áhrif munu loftslagsbreytingar og aðgerðir til að draga úr þeim hafa á mótun framtíðarsamfélagsins? Breytingar hljóta að eiga sér stað þegar loksins verður brugðist við vandanum. Eigum við sem samfélagsþegnar ekki að hafa áhrif á þær?

Undanfarnir áratugir hafa einkennst af miklum hagvexti og neysluhyggju sem náðu hámarki hér á landi fyrir örfáum árum en enduðu með hruni. Hvort tveggja er á kostnað auðlinda jarðar, umhverfisins og hinna fátæku í heiminum. Það hefur verið reiknað út að ef allir lifðu eins og við Íslendingar þyrfti 21 jörð til að standa undir þeirri stórveislu. Þær eru bara ekki til og ekki er hægt að halda áfram á sömu braut. Rauðu ljósin blikka hvarvetna og móðir Jörð biðst griða. Þeir sem horfast í augu við umhverfisvandann viðurkenna að snúa þarf blaðinu við. Mannkynið verður að læra að lifa í sátt við náttúruna og nýta hana þannig að komandi kynslóðir geti búið við viðunandi lífsgæði. Við getum lært af fortíðinni hvernig hægt er að nýta auðlindir jarðar á sjálfbæran hátt. Spennandi samfélagsbreytingar eru framundan og þær verða að byggjast á jöfnuði, jafnrétti og virðingu við umhverfið. Hvernig samfélag viljum við? Hvernig viljum við að valdahlutföll verði í framtíðarlandinu? Hverjir munu ráða yfir auðlindunum og hvernig? Hvernig verður jafnrétti kynjanna háttað? Verður framtíðarlandið land barna og umhyggju? Hvaða gildi viljum við að verði í hávegum höfð? Spurningarnar eru ótal margar og eru allir velkomnir í Akureyrarakademíuna til að ræða um framtíðarlandið.

Dagskrá:

Kl. 16.00 Málstofan sett.

Kl. 16.05 Erindi - Kristín Vala Ragnarsdóttir forseti verkfræði- og náttúruvísindasviðs Háskóla Íslands

Kl. 16.25 Erindi – Hlynur Hallsson myndlistarmaður

Kl. 16.45 Erindi – Kristín Ástgeirsdóttir framkvæmdastýra Jafnréttisstofu

Kl. 17.00-18.00 Umræður á hringborðum.

Málstofustjóri: Pétur Björgvin Þorsteinsson, djákni og formaður stjórnar Akureyrarakademíunnar