- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Föstudaginn 9. október fer fram doktorsvörn við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands. Þá ver Gyða Margrét Pétursdóttir félags- og kynjafræðingur doktorsritgerð sína Within the Aura of Gender Equality: Icelandic work cultures, gender relations and family responsibility (Innan áru kynjajafnréttis: Vinnumenning, kynjatengsl og fjölskylduábyrgð).Andmælendur eru dr. David Morgan prófessor við Morgan Centre for the Study of Relationships and Personal Life, School of Social Sciences, The University of Manchester og dr. Helga Kristín Hallgrímsdóttir lektor í félagsfræði við félagsfræðideild University of Victoria. Leiðbeinandi í verkefninu var dr.
Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði. Dr. Gunnar Helgi Kristinsson prófessor, deildarforseti við stjórnmálafræðideild, stjórnar athöfninni sem fer fram í hátíðarsal, Aðalbyggingu og hefst kl. 14.
Doktorsritgerðin er framlag til fræða sem fjalla um samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu. Vinnumenning, kynjatengsl og fjölskylduábyrgð voru rannsökuð á ólíkum sviðum vinnumarkaðarins: á einkamarkaði og í opinbera geiranum. Til viðbótar var skoðuð verkaskipting heimilisverka, umönnun barna, launamunur, og frítími meðal gagnkynhneigðra, hvítra Íslendinga, karla og kvenna sem eiga börn. Eigindlegum rannsóknaraðferðum var beitt, þátttökuathuganir voru framkvæmdar og eigindleg viðtöl tekin við 24 konur og 24 karla sem starfa á 15 ólíkum vinnustöðum. Þeir eru vinnustaðir Reykjavíkurborgar, hugbúnaðarfyrirtæki, skyndibitastaðir, matvöruverslun og bensínstöð.
Kynjuð verkaskipting ríkti innan hinna ólíku vinnustaða. Eðli og skipulagning hefðbundinna kvennastarfa er með þeim hætti að konur hafa minni hreyfanleika í starfi en karlar, og þess vegna minni sveigjanleika, þrátt fyrir að sinna meginhluta heimilisverka og umönnunar barna. Störf karla bjóða upp á meiri hreyfanleika og eiga þeir þess vegna auðveldara með að nýta sér sveigjanleikann sem býðst á vinnustaðnum. Þennan sveigjanleika nýta þeir aðeins að takmörkuðu leyti til að sinna fjölskylduábyrgð, vegna kynjaðra væntinga. Litið er á karla sem fyrirvinnur eða fyrirmyndarstarfsmenn. Hin kynjaða verkaskipting á opinbera sviðinu og hvernig störf kvenna eru minna metin en störf karla hefur áhrif á kynjuð valdatengsl bæði á opinbera sviði atvinnulífsins og einkasviði heimilisins. Karlar upplifa og halda því fram að verkaskipting heimilisverka og umönnun barna sé jöfn. Konur varpa fram ímynd hins frjálsa einstaklings sem hefur frjálst val þrátt fyrir að reyndin sé önnur. Bæði eru því innan hinnar félagslega viðurkenndu áru kynjajafnréttis. Völdum karla á vinnustaðnum og heimilinu er þannig viðhaldið með stuðningi kvenna. Stuðningi sem byggir á takmörkuðu aðgengi þeirra að félagslegum og fjárhagslegum völdum á opinbera sviðinu og einkasviðinu.
Í doktorsnefnd sátu dr. Berit Brandth prófessor í félagsfræði við félagsfræði- og stjórnmálafræðideild Norwegian University of Science and Technology, dr. Guðbjörg Linda Rafnsdóttir prófessor í félagsfræði við félags- og mannvísindadeild Háskóla Íslands og dr. Þorgerður Einarsdóttir prófessor í kynjafræði við stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands.
Gyða Margrét Pétursdóttir er fædd í Reykjavík árið 1973. Hún lauk BA prófi frá félagsvísindadeild Háskóla Íslands árið 2002 og MA prófi frá sama skóla árið 2004. Samfara námi hefur hún sinnt rannsóknum, og kennslu við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. Gyða er í hjónabandi með Matthíasi M.D.
Hemstock tónlistarmanni, þau eiga þrjú börn.