- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa boðaði til fundar við jafnréttisfulltrúa opinberra stofnana í vikunni þar sem umræðuefnið var inngilding, fjölbreytileiki og jöfnuður. Markmið fundarins var að skapa sameiginlegan vettvang til þess að styrkja opinberar stofnanir í vinnu að jafnréttismálum.
Jafnréttismál og sérstaklega inngilding brennur á stjórnendum hins opinbera í dag og er víða mikill metnaður til staðar við að tryggja sem besta þjónustu fyrir öll og haga ákvörðunum í mannauðsmálum þannig að fjölbreytileiki og jafnrétti fáið notið sín.
Inngilding hefur verið lagaskylda undir hatti kynjasamþættingar frá árinu 2008 en með nýjum jafnréttislögum árið 2020 er nú lagaskylda að samþætta jafnréttissjónarmið í alla stefnumótun og ákvarðanatöku ekki einungis horft út frá kynjum heldur gagnvart fjölmörgum öðrum jaðarhópum sem tilgreindir eru í jafnréttislögum.
Á fundinum hélt Herdís Sólborg Haraldsdóttir sérfræðingur og eigandi Kveikju erindi um fjölbreytileika, inngildingu og jöfnuð og hvað það þýðir að vinna að jafnréttismálum í dag. Einnig kynnti Sandra Björk Bjarkadóttir, mannauðs- og jafnréttissérfræðingur hjá Samkaup stefnu fyrirtækisins sem nefnist Jafnrétti fyrir öll – Samkaup alla leið. Að lokum fjallaði Eygló Ingadóttir, hjúkrunarfræðingur og fráfarandi formaður jafnréttisnefndar Landspítalans um áskoranir í jafnréttismálum hjá heilbrigðisstofnunum.
Opinberar stofnanir fást við afar ólík viðfangsefni og viðhafa þarf ólíkar nálganir til þess að tryggja sem best inngildingu í stefnumótun en hægt er að læra af öðrum, til dæmis fyrirtækjum og nýta þá aðferðafræði sem þegar hefur sýnt árangur. Meðal þess sem kom einnig fram er nauðsyn þess að byggja upp menningu virðingar og víðsýni þar sem unnið er gegn hvers konar mismunun og ekki síst ómeðvitaðri hlutdrægni, öll þurfum við að tilheyra. Einnig er nauðsynlegt að vinna með talnagögn til þess að fá upp rétta mynd af ýmsum þáttum þjónustunnar og mannauðs. Raundæmi frá Samkaupum og Landsspítalanum sýndu mikilvægi samtalsins um jafnréttismál og mannréttindi á vinnustaðnum, sem þarf að vera viðvarandi með virkum aðgerðum. Samkaup hafa markað skýra inngildingarstefnu sem er formgerð í jafnréttisáætlun fyrirtækisins og sýnileg út á við. Mikil ánægja er með vinnuna innan fyrirtækisins en takast þarf á við samfélagslegar áskoranir sem fylgja slíkri vinnu.
Afar góð mæting var á fundinn og stefnir Jafnréttisstofa á að gera þetta að árlegum viðburði, þar sem markmiðið er að opna á samtalið um jafnréttismál hjá opinberum stofnunum.