- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Nýlega birti World Economic Forum sem er sjálfstæð alþjóðleg stofnun árlegan lista yfir stöðu kynjajafnréttis í heiminum árið 2011. Þriðja árið í röð vermir Ísland efsta sætið og hefur aðeins bætt stöðu sína frá árinu 2010. Noregur, Finnland og Svíþjóð fylgja fast á eftir í sætum 2-4 en Danmörk er í sjöunda sæti. Það eru einkum pólitísk áhrif kvenna og staðan í menntamálum sem gerir að verkum hve Ísland kemur vel út. Þegar litið er á kynjajafnrétti á vinnumarkaði versnar ástandið heldur og einnig í heilbrigðismálum en reyndar munar sáralitlu milli landa í mælingunum á þessum þáttum.
Hæsta einkunn fæst með því að kynjabil sé sem minnst en hún lækkar því breiðara sem bilið er. Að þessu sinni var bætt við mælingum á nokkrum efnahagslegum og félagslegum þáttum svo sem sköttum, aðgengi að barnagæslu, fæðingarorlofi, lagasetningu um kynjajafnrétti o.fl. Skýrsla ársins 2011 er því ekki alveg sambærileg við fyrri skýrslur.
Í fréttatilkynningu frá World Economic Forum kemur fram að á heildina litið hafi ástandið heldur versnað í heiminum, einkum í Afríku og S-Ameríku.
Þegar listar World Economic Forum tóku að birtast fyrir sex árum risu spurningar um gildi slíkra mælinga og hafa þær oft verið gagnrýndar fyrir að gefa ekki rétta mynd af stöðu mála. Það er t.d. ekki spurt um vinnutíma og vinnuálag, skiptingu heimilisstarfa eða ábyrgð á uppeldi barna. Engu að síður gefur listinn margvíslegar upplýsingar um jafnrétti kynjanna og endurspeglar ekki síst hve staða kvenna er bágborin víða um heim fremur en hve góð hún er í einstaka löndum.
Það ber að hafa í huga að 135 lönd í heiminum eru borin saman allt frá Íslandi í norðri til fátækustu þjóða heims í suðri en Pakistan, Chad og Yemen eru neðst á listanum. Þá ber að gæta þess að á meðal þess sem spurt er um og borið saman er t.d. erfðaréttur, læsi kvenna og karla, mæðra- og barnadauði, giftingar ungmenna (víða tíðkast barnagiftingar og þvingaðar giftingar), útbreiðsla HIV o.fl. Þarna eru á ferð málefni sem tekið var á í upphafi 20. aldar og jafnvel löngu fyrr hér á landi auk þess sem Íslendingar glíma sem betur fer ekki alnæmisfaraldur eins og svo margar þjóðir heims. Þá má ekki gleyma því að hér á landi hefur starfað öflug kvennahreyfing sem barist hefur fyrir réttindum kvenna og bættri stöðu þeirra í meira ein 100 ár. Efsta sætið er ekki síst árangur þeirrar baráttu.
Kristín Ástgeirsdóttir
Skýrslu World Economic Forum má sjá hér.