- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kynjakvótar hafa gagnast fleiri körlum en konum í prófkjörum flokkanna í ár, en þó eru líkur á því að konum á þingi muni fjölga eitthvað eftir Alþingiskosningarnar í næsta mánuði. Konur bjóða sig síður fram í prófkjörum en karlar og skiptar skoðanir eru um það hvort að prófkjörsformið sé aðlaðandi fyrir konur. Þetta var á meðal þess sem kom fram á hádegisfundi Jafnréttisstofu um stöðu og tækifæri kvenna í stjórnmálum sem haldinn var á Hótel KEA í dag.
Fundurinn var haldinn í tilefni af alþjóðlegum baráttudegi kvenna undir yfirskriftinni: Jafnrétti árið 2050? Í máli Valgerðar Sverrisdóttur, alþingiskonu og fyrrverandi ráðherra, kom fram að hún teldi ekki að jöfn staða kynjanna í stjórnmálum myndi koma af sjálfu sér með tímanum, heldur þyrfti stöðugt að berjast fyrir auknum hlut kvenna. Valgerður lýsti því hvernig tilkoma Kvennalistans og stofnun landssamtaka Framsóknarkvenna hefði haft áhrif á þá ákvörðun hennar að bjóða sig fram til þings.
Niðurstaða prófkjara helgarinnar var mikið rædd á fundinum og þá ekki síst sú staðreynd að fimm konur enduðu í fimm efstu sætum prófkjörs Framsóknarflokksins í suðvesturkjördæmi, en tvær þeirra verða færðar niður um sæti samkvæmt reglum flokksins um kynjakvóta. Birgir Guðmundsson, stjórmálafræðingur, benti á það í erindi sínu að þrír karlar og tvær konur hefðu færst upp um sæti vegna kynjakvóta í þeim prófkjörum flokkanna sem þegar hafa farið fram vegna kosninganna í vor. Mun fleiri karlar en konur bjóða sig fram í prófkjörunum í ár eins og áður, að sögn Birgis.
Svanfríður Jónasdóttir, bæjarstjóri á Dalvík og fyrrverandi alþingiskona, ræddi sérstaklega stöðu kvenna í landsbyggðarkjördæmunum og benti á að af þeim rúmlega 20 konum sem kjörnar voru á þing í síðustu Alþingiskosningum, voru aðeins fimm konur af landsbyggðinni. Hún sagði að viðhorf veiðimannasamfélagsins væru andsnúin konum í stjórnmálum og einnig að það væri meira átak fyrir konur af landsbyggðinni að fara á þing en konur á höfuðborgarsvæðinu. Svanfríður taldi að stefna flokkanna, fjölskylduábyrgð kvenna, starfshættir Alþingis og lítill sýnileiki í fjölmiðlum væri á meðal þess sem hindraði framgang kvenna í stjórnmálum.
Að loknum erindum framsögumanna voru líflegar umræður um prófkjör, kynjakvóta og hlutfall kynjanna á þingi og í ríkisstjórn. Þeirri spurningu var velt upp hvort að kynjakvótar ættu aðeins að gilda á annan veginn, á meðan konur væru í miklum minnihluta á þingi. Einnig var rætt um það hvort prófkjör væru fráhrindandi fyrir konur og sýndist sitt hverjum.