Jafnrétti í 100 stærstu fyrirtækjunum landsins

Rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst hefur birt upplýsingar um jafnrétti í 100 stærstu fyrirtækjunum, miðað við veltu, hér á landi fyrir árið 2005.
Þetta er fyrsti hlutinn í verkefninu Jafnréttiskennitala fyrirtækja en Rannsóknasetur vinnuréttar og jafnréttismála við Viðskiptaháskólann á Bifröst stendur að verkefninu, í samstarfi við Viðskiptaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Jafnréttisráð og Jafnréttisstofa.

Markmið verkefnisins er að búa til mælikvaðra á árangur fyrirtækja í jafnréttismálum. Helstu niðurstöður verkefnisins fyrir árið 2005 eru þessar:

· Konur skipuðu 12% stjórnarsætanna (51 af 434 stjórnarsætum).

· Konur voru 10,5% yfirmanna fyrirtækjanna (43 konur af 410 forstjórum og framkvæmdastjórum).

· 39% fyrirtækjanna voru með skriflega jafnréttisáætlun, en 61% fyrirtækjanna höfðu enga slíka áætlun.

· Engin kona var í stjórn 55% fyrirtækjanna

· Fimm konur voru stjórnarformenn í fyrirtækjunum, þ.e. um 5 % stjórnarformanna.

· Fimm fyrirtæki voru með konur í 50% stjórnarsæta eða meira, þ.e. um 5% fyrirtækjanna. Þetta eru Íslensk-ameríska verslunarfélagið ehf., Fasteignafélagið Stoðir hf., Bílabúð Benna ehf., Eykt ehf. og Þ.G. verktakar ehf. Konur gegndu stjórnarformennsku í tveimur þessara fyrirtækja.

· Konur voru í tæplega 6% stjórnarsæta af þeim fyrirtækjum á listanum sem skráð eru á Aðallista Kauphallar Íslands, þar af gegndi ein kona stjórnarformennsku.

Skýrslan