- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Rúmlega hundrað manns sóttu árlega vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar Háskólans á Akureyri sem haldin var laugardaginn 1. apríl sl. Þema ráðstefnunnar, sem að þessu sinni var haldin í samstarfi við Jafnréttisstofu, var jafnrétti í skólastarfi en jafnrétti er einn af grunnþáttum íslenskrar menntastefnu.
Aðalfyrirlesarar voru Guðný Guðbjörnsdóttir prófessor við Menntavísindasviði HÍ, Ingólfur Ásgeir Jóhannesson prófessor við Menntavísindasvið HÍ, Íris Hrönn Garðarsdóttir, Arnaldur Skorri Jónsson, Laufey Ipsita Stefánsdóttir og Hrannar Þ Rósarson nemendur Verkmenntaskólans á Akureyri. Auk þess var fjöldi áhugaverðra erinda í boði í þremur málstofulotum.
Guðný fjallaði í erindi sínu um nýlegar rannsóknir Rannkyn sem annars vegar lúta að jafnréttisfræðslu á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og hins vegar að þekkingu, áhuga og viðhorfum stjórnenda í leik-, grunn- og framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Niðurstöðurnar benda til þess að þekking á kynjafræðilegum grunnhugtökum mætti vera betri og viðhorf upplýstari hjá stórum hópi þátttakenda. Mikill áhugi var meðal kennaranema og skólastjórnenda um aukna kynjajafnréttisfræðslu einkum til að breyta staðalmyndum kynjanna og til að bregðast við kvörtunum ungs fólks um kynferðislega áreitni.
Íris, Arnaldur, Laufey og Hrannar tóku öll kynjafræði sem valáfanga við Verkmenntaskólann á Akureyri. Þau sögðu frá því hvernig kynjafræðin gaf þeim aðra sýn á veruleikann. Öll lögðu þau áherslu á mikilvægi þess að byrja sem fyrst að fræða börn um hvernig staðalmyndir kynjanna mismuna og takmarka frelsi og val einstaklingsins. Sjálf hefðu þau viljað fá meiri jafnréttisfræðslu í grunnskóla og nefndu t.d. staðalmyndirnar, karlmennskuhugmyndir og kynfræðslu í því sambandi. Í máli þeirra kom fram að strákar fara oft í vörn þegar talið berst að femínistum og að þá skorti skilning á því út á hvað femínismi gengur. Unga fólkið taldi að hjálpa þyrfti strákum að sjá að jafnrétti er líka þeim í hag.
Ingólfur fór yfir stöðu jafnréttisfræðslu- og kynjafræðikennslu. Hann greindi inntak aðalnámskrár leik-, grunn- og framhaldsskóla frá 2011 og sýndi hvernig hugtök kynjafræða og hinseginfræða eru útfærð í sérhlutum námskrárinnar fyrir einstök skólastig, í völdu námsefni og við kynjafræðikennslu í framhaldsskólum. Að lokum velti hann því fyrir sér hvort og þá hvernig skólarnir taka ábyrgð á því lögbundna verkefni sem jafnréttisfræðslan er.
Meðal umfjöllunarefna í málstofum má nefna jafnrétti í félagslífi framhaldsskólanemenda, samráðsvettvang jafnréttisfulltrúa háskóla, karla í leikskólum, margþætta mismunun fatlaðra kvenna og fræðslu um kynhneigð, kynvitund og kyneinkenni í grunnskólum Hafnarfjarðar.
Ráðstefnan tókst afar vel og allir fyrirlesarar og gestir fá bestu þakkir fyrir góða og lærdómsríka samveru.
Næsta vorráðstefna Miðstöðvar skólaþróunar HA verður haldin laugardaginn 14. apríl 2018 og verður þema hennar samstarf heimila og skóla.