Jafnrétti í skólastarfi – breytt tilhögun eftirlits

Vorið 2013 var í fyrsta skipti kallað eftir jafnréttisáætlunum frá grunnskólum og hefur það síðan verið gert reglulega. Jafnréttisstofa mun nú hætta þeirri innköllun en leik- og grunnskólar hafa samt enn ríkar lagaskyldur til að tryggja jafnrétti í skólastarfi og er mikilvægt að þeim skyldum sé sinnt.

Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur það hlutverk að fylgjast með þróun jafnréttismála og að jafnréttis sé gætt í skóla- og uppeldisstarfi sem og á frístundaheimilum og í íþrótta- og tómstundastarfi. Innan ráðuneytisins er starfandi jafnréttisráðgjafi sem veitir jafnframt viðkomandi aðilum ráðgjöf í jafnréttismálum.

Allt frá því að fyrstu jafnréttislögin voru sett árið 1976 hefur íslenskum skólum verið skylt að fræða nemendur um jafnrétti kynjanna og að undirbúa stráka og stelpur til jafnrar þátttöku í fjölskyldu- og atvinnulífi. Með nýjum jafnréttislögum er engin breyting gerð þar á og skal flétta jafnréttismarkmið (þ.e. kynja- og jafnréttissjónarmið) inn í menntastefnur sveitarfélaganna og aðra áætlanagerð í skólastarfi.

Um menntun og skólastarf segir:

  • Samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða skal gætt við alla stefnumótun og áætlanagerð í skóla- og uppeldisstarfi, þar á meðal á frístundaheimilum og í íþrótta- og tómstundastarfi.
  • Á öllum skólastigum skulu nemendur hljóta jafnréttis- og kynjafræðslu við hæfi þar sem m.a. er kennt um kynjaðar staðalímyndir, kynbundið náms- og starfsval og málefni fatlaðs fólks og hinsegin fólks.
  • Öll kennslu- og námsgögn skulu þannig úr garði gerð að kynjum sé ekki mismunað.
  • Í náms- og starfsfræðslu og við ráðgjöf í skólum skulu nemendur hljóta fræðslu og ráðgjöf í tengslum við sömu störf, óháð kyni.
  • Gerðar skulu sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk og nemar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni.

Í lögum er sérstaklega kveðið á um bann við mismunun á grundvelli kyns (lög nr. 150/2020), kynþáttar og þjóðernisuppruna (lög nr. 85/2018) í skólum sem og á frístundaheimilum og í skipulögðu íþrótta og æskulýðsstarfi.

Starfsfólki grunn- og leikskóla sveitarfélaganna eru tryggð réttindi þau sem kveðið er á um í jafnréttislögum í áætlunum sveitarfélaganna um jafnréttismál (13. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála) og bera yfirstjórn sveitarfélags og skólastjórnendur ábyrgð á að framfylgja skyldum þar að lútandi eftir því sem við á.

Jafnréttisstofa vinnur nú að gerð fræðslumyndbands um jafnrétti í skólastarfi og sem fyrr veitir stofnunin ráðgjöf og leiðbeiningar.

Nánari upplýsingar:
https://www.jafnretti.is/is/samfelag-og-vinnumarkadur/jafnretti-i-skolum/jafnretti-i-skolum
https://www.jafnretti.is/static/files/Leidbeiningar/skyldur-skola.pdf