- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisráð Háskólans á Akureyri stendur fyrir dagskrá á Jafnréttisdögum sem fara fram í Háskólanum á Akureyri dagana 10. – 13. október næstkomandi. Dagskráin er afar fjölbreytt en jafnréttisdagarnir eru samstarfsverkefni allra háskóla í landinu. Þemað í ár er ljósið.
Opnun Jafnréttisdaga í Háskólanum á Akureyri hefst mánudaginn 10. október klukkan 9.30 á því að kveikt verður á kertum og ljósaseríum í Miðborg, anddyri skólans, en síðan mun Anna Richardsdóttir, listakona, fremja þar „Hreingjörning“. Þar á eftir, kl. 10.00, mun FSHA (Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri) og alþjóðadeild skólans standa fyrir jafnréttis- og tungumálakaffi en þar geta gestir keypt kaffi og „jafnréttismúffur“. Auk þess gefst tækifæri til að fræðast um erlend tungumál og spreyta sig á þeim.
Í Miðborg hefur verið sett upp örsýningin „Jafnrétti í augnsýn“ þar sem markmiðið er að minna gesti á hin víðfemu svið jafnréttismála og vekja þá til umhugsunar.
Þriðjudaginn 11. október verður opnað Heimspekikaffihús kl. 10 á bókasafni HA í umsjón Margrétar Elísabetar Ólafsdóttur, lektors við kennaradeild. Þar mun Jón Páll Eyjólfsson, leikhússtjóri LA, ræða um liðveislu sviðslista í jafnréttisbaráttunni og aðferðafræði samyrkju í sviðslistum.
Hádegisfyrirlestrar verða haldnir frá mánudegi til fimmtudags og er efni þeirra fjölbreytt. Á mánudag fjallar Hans Jónsson um stöðu hinsegin fólks á Íslandi og á þriðjudag spyr Hildur Friðriksdóttir hvort þörf sé á lagalegri skilgreiningu á hrelliklámi. Á miðvikudeginum verður verkefnið Rjúfum hefðirnar – förum nýjar leiðir kynnt en þar er á ferðinni samstarfsverkefni Jafnréttisstofu og Háskólans á Akureyri ásamt öðrum. Á fimmtudag fjallar Margrét Nilsdóttir um BDSM og jafnrétti.
Dagskrá Jafnréttisdaga líkur með lokahófi á vegum FSHA í anddyrinu á Borgum, fimmtudaginn, 13. október, kl. 18-21. Á dagskrá er jafnréttis-quiz í umsjón Bjarka Freys Brynjólfssonar og hljómsveitin Gringlombian spilar. Léttar veitingar verða í boði FSHA.
Hér má sjá dagskránna í heild sinni.