- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa býður upp á starfsdagspakka fyrir starfandi kennara og starfsfólk skóla, einnig eru í boði styttri námskeið og fyrirlestrar. Fyrsti starfsdagurinn var í Fjarðabyggð mánudaginn 17. ágúst síðastliðinn í samstarfi við Þórodd Helgason fræðslustjóra í Fjarðabyggð. Rúmlega hundrað grunnskólakennarar sóttu námskeiðið sem þótti takast einstaklega vel.
Auk þess hefur Jafnréttisstofa verið með tvo jafnréttisfræðslufundi, nú í ágúst, með kennurum og starfsfólki grunnskólanna á Akureyri í samstarfi við Gunnar Gíslason fræðslustjóra á Akureyri. Tæplega fjögurhundruð kennarar sóttu þá fundi.
Starfsdagurinn í Fjarðabyggð hófst á því að Jóna Pálsdóttir, jafnréttisráðgjafi í menntamálaráðuneytinu, fór yfir ákvæði laga og námskráa um jafnrétti kynjanna og hlutverk jafnréttisráðgjafa. Tryggvi Hallgrímsson og Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingar á Jafnréttisstofu, fóru yfir stöðu jafnréttismála og fjölluðu um mikilvægi jafnréttisfræðslu í skólum. Arnfríður Aðalsteinsdóttir, verkefnisstjóri á Jafnréttisstofu, kynnti þróunarverkefnið Jafnréttisfræðsla í leik- og grunnskólum og Sigurbjörg Hallgrímsdóttir og Unnur Gunnarsdóttir kennarar í Vogaskóla kynntu jafnréttisfræðsluverkefnið sitt Jafnrétti kynjanna frá landnámi til vorra daga.
Eftir hádegið var boðið upp á fjórar vinnustofur. Skólastjórnendur sóttu vinnustofu þar sem farið var í gerð jafnréttisáætlana fyrir skóla og kennarar skiptu sér niður á þrjár vinnustofur, yngstastig, miðstig og unglingastig, þar sem þeir veltu fyrir sér hvernig þeir gætu stuðlað að aukinni jafnréttisfræðslu og jafnréttisstarfi í sínum skóla. Að lokum voru niðurstöður vinnustofanna kynntar en þær verða sendar skólayfirvöldum og skólastjórnendum til frekari úrvinnslu. Jafnréttisstofa býður skólunum upp á stuðning og eftirfylgni sé þess óskað. Fyrirhugað er að vera með svipaða starfsdaga fyrir kennara og starfsfólk leikskólanna í Fjarðabyggð 6. október 2009 og 2. febrúar 2010.
Í 23. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla frá 2008 er kveðið á um að á öllum skólastigum skuli nemendur hljóta fræðslu um jafnréttismál þar sem meðal annars skal leggja áherslu á að búa bæði kynin undir jafna þátttöku í samfélaginu, svo sem í fjölskyldu- og atvinnulífi.
Forsenda markvissrar jafnréttisfræðslu á öllum skólastigum eru vel menntaðir kennarar á sviði jafnréttis- og kynjafræði. Að jafnaði hafa ekki verið sérstök námskeið í kynjafræði í kennaranáminu, þótt sums staðar hafi verið hægt að sækja valnámskeið á þessu sviði. Jafnréttisstofa vill bæta úr þessu og hvetur skólayfirvöld og alla þá sem vilja efla og auka jafnréttisstarf og jafnréttisfræðslu í skólum að hafa samband í síma 460-6208 eða á netfangið arnfridur[at]jafnretti.is og kynna sér hvaða námskeið og eða stuðningur er í boði. Markmið Jafnréttisstofu er að styðja skólayfirvöld og skólastjórnendur við að fara að lögum og innleiða jafnréttisfræðslu inn í allt skólastarf.