Jafnréttismat á frumvörpum

Jafnréttisstofa vill vekja athygli á að með nýju frumvarpi félags- og húsnæðismálaráðherra um breytingar á lögum um almannatryggingar, fylgir sérstakt jafnréttismat. Jafnréttismatið er unnið í samræmi við innleiðingaráætlun um kynjaða hagstjórn og fjárlagagerð. Samkvæmt áætluninni skal jafnréttismeta 10% frumvarpa sem lögð eru fram í ár og á hlutfallið að vera komið upp í 100% frumvarpa árið 2019. 
 
Niðurstaða jafnréttismatsins er sú að frumvarpið jafni tekjur karla og kvenna, og falli þannig vel að jafnréttismarkmiðum frumvarpsins sem miðar að efnahagslegu jafnræði, sjálfstæði og jöfnum tækifærum karla og kvenna.

Frumvarpið sjálft og jafnréttismatið má lesa á heimasíðu velferðarráðuneytisins.