- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þorsteinn Víglundsson nýr ráðherra jafnréttismála átti fund með Kristínu Ástgeirsdóttur framkvæmdastýru Jafnréttisstofu fyrr í vikunni. Til umræðu voru helstu verkefni sem framundan eru á sviði jafnréttismála með áherslu á jafnrétti á vinnumarkaði og innleiðingu jafnlaunastaðals.
Eftirfarandi frétt birtist á heimasíðu Velferðarráðuneytisins:
Á fundinum gerði ráðherra grein fyrir áherslum sínum með vísan í samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar þar sem jafnréttismálum er gert hátt undir höfði, ekki síst jafnrétti á vinnumarkaði. Ráðherra segir kynbundinn launamun að öllu leyti óþolandi mismunun sem verði að útrýma. Raunhæfar aðgerðir að því marki séu allra hagur: „Ekki aðeins er þessi mismunun óverjandi, hún stendur líka atvinnulífinu fyrir þrifum“ segir ráðherra sem stefnir að því að leggja fram frumvarp á Alþingi um lögfestingu jafnlaunavottunar sem skyldar fyrirtæki með fleiri en 25 starfsmenn til að nota jafnlaunastaðal í því skyni: „Jafnlaunastaðallinn er gott tæki til að bæta vinnubrögð við launasetningu og það styrkir tvímælalaust stöðu fyrirtækja í samkeppninni um hæfasta fólkið að geta sýnt fram á launasetningu sem mismunar ekki fólki vegna kynferðis og byggist á vandaðri aðferðafræði“ segir Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra.
Þorsteinn og Kristín fóru á fundinum almennt yfir starfssvið Jafnréttisstofu, ræddu um aðgerðir gegn heimilisofbeldi, þar á meðal vinnu við staðfestingu Istanbúl-samkomulagsins, stöðu drengja í menntakerfinu og stöðu kynjajafnréttis á norðurslóðum. Ráðherra fjallaði einnig um mikilvægi þess að styrkja fæðingarorlofskerfið og ýta undir orlofstöku feðra. Stefnt er að því að hækka hámarksfjárhæðir fæðingarorlofs á næstu árum samkvæmt stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.
Dagana 13.–24. mars næstkomandi verður haldinn 61. fundur kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York, undir yfirskriftinni; „efnahagsleg valdefling kvenna á tímum breytinga á vinnumarkaði.“ Á fundinum mun félags- og jafnréttisráðherra taka þátt í sameiginlegri dagskrá norrænna ráðherra jafnréttismála og meðal annars funda með framkvæmdastjóra UN women um skuldbindingar Íslands í verkefninu HeforShe sem meðal annars felast í jafnlaunamálum og jafnrétti á vinnumarkaði. Þorsteinn og Kristín ræddu einnig um undirbúning vegna þátttöku Íslands í kvennanefndarfundinum og helstu áherslur þar að lútandi.
---------------------
Starfsfólk Jafnréttisstofu óskar Þorsteini velfarnaðar í starfi og væntir góðs af samstarfi við nýjan ráðherra. Í fyrsta sinn eru jafnréttismál í titli ráðherra hér á landi.