- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa hlaut á dögunum 60.000€ styrk úr Erasmus+ á sviði mennta- æskulýðs- og íþróttamála í flokki samstarfsverkefna. Verkefnið sem er styrkt er unnið í samstarfi við Inova Aspire í Hollandi og kallast “Diversity Inside Out - Voices from Inside Organisations Foster Change“. Jafnréttisstofa hefur frá árinu 2018 haft umsjón og eftirlit með framkvæmd laga nr. 85/2018 um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna, og lögum nr. 86/2018 um jafna meðferð á vinnumarkaði. Verkefni þetta er liður í viðleitni Jafnréttisstofu að veita fræðslu og efla þekkingu og getu stofnunarinnar til að sinna skyldum sínum.
Í verkefninu verður lögð áhersla á mikilvægi fjölbreytileika á vinnumarkaði og hvernig stjórnendur, mannauðsstjórar, starfsfólk og ráðgjafar innan fyrirtækja, stofnana og félaga, geta virkjað fjölbreytileika innan skipulagsheilda starfseminni í hag. Litið verður til mismunandi áhrifa Covid-19 og aukinnar fjarvinnu á vinnuveitendur og starfsfólk og hvernig koma má í veg fyrir neikvæð áhrif á fjölbreytileika og framgang mismunandi hópa í starfi.
Áætlað er að verkefnið hefjist 1. desember 2021 og því ljúki í júní 2023.
Hjalti Ómar Ágústsson, sérfræðingur á Jafnréttisstofu, tók við styrknum á Kjarvalsstöðum.