- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisvaktin hefur skilað Ástu R. Jóhannesdóttur, félags- og tryggingamálaráðherra, áfangaskýrslu um áhrif kreppunnar á karla og konur. Í áfangaskýrslu jafnréttisvaktarinnar er lögð áhersla á mikilvægi þess að stjórnvöld hafi ávallt jafnréttis- og kynjasjónarmið að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku. Fjallað er um ýmsa þætti sem vaktin leggur áherslu á eins og stöðu kynjanna á vinnumarkaði, viðbrögð karla og kvenna við atvinnuleysi, félagsleg áhrif efnahagsþrenginganna og hugsanlega aukningu á ofbeldi á heimilum. Þá leggur jafnréttisvaktin áherslu á mikilvægi þess að kynin hafi jafna möguleika til áhrifa í endurreisn íslensks samfélags.
Jafnréttisvaktin telur mikilvægt að stjórnvöld hugi að áhrifum ákvarðana sinna á stöðu kynjanna og að tekin verið upp aðferðafræði kynjaðrar hagstjórnar í fjárlagagerð. Þá er bent á mikilvægi þess að störf hjá hinu opinbera verði varin og að atvinnuskapandi aðgerðir gagnist bæði konum og körlum. Einnig er talað um að sérstaklega þurfi að huga að þörfum atvinnulausra karla, sem eigi frekar á hættu en konur að einangrast félagslega.
Auk þess leggur jafnréttisvaktin til að störf jafnréttisfulltrúa í ráðuneytum verði efld og að aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn mansali verði hrundið af stað hið fyrsta. Loks er lögð áhersla á að hugsanlegar breytingar á heilbrigðisþjónustu taki mið af ólíkum þörfum kynjanna og þess gætt að umönnun sjúklinga auki ekki álagið á heimilin.
Ráðherra skipaði vinnuhóp jafnréttisvaktarinnar í samræmi við verkefnaskrá ríkisstjórnarinnar í febrúar síðastliðnum. Hlutverk jafnréttisvaktarinnar er að safna upplýsingum um áhrif efnahagsástandsins á stöðu kynjanna og vera stjórnvöldum til ráðgjafar um jafnréttismál til að tryggja að við endurreisn íslensks efnahagslífs verði jafnrétti kynjanna haft að leiðarljósi. Nánari upplýsingar um Jafnréttisvaktina má finna á vefsvæði hennar.
Formaður jafnréttisvaktarinnar er Bryndís Ísfold Hlöðversdóttir. Tryggvi Hallgrímsson situr í nefndinni fyrir hönd Jafnréttisstofu, en aðrir nefndarmenn eru Kolbeinn Stefánsson, Sigurður Guðmundsson, Helga Jóhannesdóttir, Gunnar Alexander Ólafsson og Hildur Jónsdóttir.