Jafnréttisviðurkenning Jafnréttisráðs

Eygló Harðardóttir ráðherra jafnréttismála veitti í gær, 20. mars, Samtökum kvenna af erlendum uppruna og Orkuveitu Reykjavíkur jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs. Viðurkenningar voru veittar í tveimur flokkum. Annarsvegar til fyrirtækis, sveitarfélags eða stofnunnar og hinsvegar til einstaklings, hóps eða félagasamtaka. Óvenju margar tilnefningar til jafnréttisviðurkenningarinnar bárust í ár og ljóst að víða í samfélaginu er unnið markvisst að auknu jafnrétti. Jafnréttisstofa óskar verðlaunahöfum til hamingju og vonar að verðlaunin verði öðrum hvatning.

Við viðtöku verðlaunanna sagði Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitunnar, að mikilvægt væri að stjórnendur stofnana og fyrirtækja hefðu  aðstöðu og tækifæri til að framkvæma breytingar. Ekki væri nóg að lýsa stuðningi við jafnrétti, stjórnendur þyrftu að vinna að því á markvissan hátt.





Í rökstuðningi fyrir vali Jafnréttisráðs segir um vinningshafana:

Orkuveita Reykjavíkur er þjónustufyrirtæki þar sem starfa að jafnaði um 400 manns. Orkuveita Reykjavíkur hlaut jafnréttisviðurkenninguna árið 2002 en þykir vel að henni komin aftur. Hjá fyrirtækinu hafa á þeim tólf árum sem liðin eru orðið töluverðar breytingar á innviðum og starfsemi en augljóst er að stjórnendum hefur á tímabilinu orðið ljós gagnsemi þess að hafa jafnrétti kynjanna ávallt að leiðarljósi. Í ljósi þess að orkugeirinn er karllægur geiri var fyrir þrem árum tekin sú ákvörðun hjá stjórnendum fyrirtækisins að gera breytingar í þá veru að nýta starfskrafta beggja kynja jafnt, meta kynin jafnt og veita kynjunum jafna möguleika. Fyrirtækið vildi vera öðrum fyrirtækjum í geiranum fyrirmynd, standa vörð um hlut kvenna og breyta viðhorfum til staðalmynda kynjanna. Í því skyni hefur fyrirtækið unnið að almennri kynjasamþættingu í starfseminni auk þess að uppfylla lagaskyldur og hafa í gildi metnaðarfulla jafnréttisáætlun með aðgerðum sem tryggja starfsfólki réttindi samkvæmt lögum. Með kynjasamþættingu er tekið mið af jafnréttissjónarmiðum við stefnumótun og stærri ákvarðanir og unnið er að því að efla jafnréttisvitund starfsfólks. Stjórnendur Orkuveitu Reykjavíkur hafa með ábyrgri ákvörðun um breytingar sýnt hvernig slík ákvörðun getur orsakað viðhorfsbreytingu, haft áhrif í fyrirtækinu sjálfu og samfélaginu almennt. 

Samtök kvenna af erlendum uppruna voru stofnuð árið 2003 með þann tilgang að sameina konur sem sest hafa að á Íslandi og ljá hagsmuna- og áhugamálum þeirra rödd. Markmið samtakanna er að vinna að jafnrétti og jafnri stöðu kvenna af erlendum uppruna á öllum sviðum þjóðlífsins. Á þeim rúmlega 10 árum sem samtökin hafa starfað hafa þau sannað tilgang sinn, staðið vörð um réttindi kvenna af erlendum uppruna með stuðningi og fræðslu og komið í veg fyrir félagslega einangrun þeirra með því að veita þeim tækifæri til þess að aðlagast íslenskri menningu á eðlilegan hátt. Þær konur sem koma að samtökunum hafa auk þess unnið óeigingjarnt og ötult starf með því að auka sýnileika erlendra kvenna á Íslandi, lagt áherslu á styrk þeirra og auka þekkingu á verðmæti fjölmenningarlegs samfélags. Samtökin hafa einnig boðið upp á jafningjaráðgjöf og þannig stuðlað að raunverulegri valdeflingu meðal þeirra kvenna sem þangað leita. Með aukinni umfjöllun, samvinnu og þátttöku hefur samtökunum tekist að bæta lífsgæði erlendra kvenna á Íslandi.  Samtök kvenna af erlendum uppruna hafa sýnt og sannað hvernig samtakamáttur og jákvæðni gagnvart fjölbreytileika getur átt þátt sinn í því að bæta lífsgæði erlendra kvenna á Íslandi.