- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
SFR - stéttarfélag hefur lagt mikla áherslu á launajafnrétti kynjanna og jafnréttismál í starfi sínu. Á síðustu misserum hafa ýmsir haldið því fram að jafnréttismálin séu síður á dagskrá vegna þeirra erfiðleika í efnahagsmálum sem íslenska þjóðin er að ganga í gegnum. Það er skoðun SFR að ef einhverju sinni hafi verið þörf á að huga sérstaklega að jafnréttismálum, þá sé það nú. Jafnrétti má ekki verða afgangsstærð í uppbyggingu og endurnýjun samfélagsins. Þvert á móti. Jafnrétti kynjanna er mikilvægara en nokkru sinni. Endurreisa þarf íslenskt samfélag þar sem velferð þegnanna, réttsýni og jafnrétti verða þau gildi sem skipað verður í öndvegi.
SFR leggur áherslu á að jöfn staða kynjanna sé ein af forsendum farsældar. Þess vegna stendur SFR fyrir ráðstefnuröð um jafnrétti á komandi vikum og verður ráðstefna haldin í öllum landsfjórðungum. Fyrsta ráðstefnan verður á Akureyri þann 8. mars næstkomandi, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Síðan verður haldið til Egilsstaða þann 14. apríl, til Ísafjarðar 20. apríl og endað í Reykjavík þann 28. apríl.
Markmiðið með ráðstefnuröðinni er að vekja upp umræður og spurningar um jafna stöðu kynjanna. SFR vill á þennan hátt gera tilraun til að varpa nýju eða öðru ljósi á umræðuna um jafnréttismál. Fyrirkomulag ráðstefnanna verður með nýstárlegum hætti. Á hverri ráðstefnu eru tveir fyrirlesarar sem tala um ólík efni. SFR gengur út frá góðri og virkri þátttöku ráðstefnugesta og verða niðurstöður ráðstefnunnar notaðar sem efniviður inn í jafnréttisáherslur félagsins til næstu missera. SFR gengur út frá því að jöfn staða kynjanna sé forsenda farsældar í íslensku samfélagi á næstu misserum.
Ráðstefnan er opin öllum og félagsmenn SFR og aðrir áhugasamir eru hvattir til að mæta og taka virkan þátt í umræðum um jafna stöðu kynjanna. Jafnrétti verður ekki náð án nýrra viðhorfa og þátttöku allra. Skráning fer fram hjá SFR.
AKUREYRI: 8. mars kl. 13:00-16:00 - Rósenborg, Skólastíg 2
Kreppan og kynjajafnrétti
Tryggvi Hallgrímsson, sérfræðingur á Jafnréttisstofu
Í ársbyrjun 2009 skipaði Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, fyrrum félags- og tryggingamálaráðherra, vinnuhóp um áhrif efnahagsbreytinga á stöðu kynjanna. Vinnuhópurinn skilaði áfangaskýrslu í lok mars sama ár. Í erindi sínu mun Tryggvi Hallgrímsson, félagsfræðingur á Jafnréttisstofu, gera grein fyrir niðurstöðum vinnuhópsins og ræða þá málaflokka og þau svið sem sérstaklega þarf að gaumgæfa á komandi tímum. Fjallað verður um þróun atvinnuleysis karla og kvenna og kynjasjónarmið í mótvægisaðgerðum stjórnvalda sem og félagssálfræðileg áhrif kreppunnar og mögulegar afleiðingar efnahagsþrenginga á kynbundið ofbeldi."
Kyn og loftslagsbreytingar - björgum jörðinni saman
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu
Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar sem haldin var í Kaupmannahöfn í desember 2009 var Ísland heiðrað sérstaklega fyrir að halda kynjasjónarhorni á lofti í þeim samningaviðræðum sem þar áttu sér stað. Margir spyrja sig hvað kynjasjónarmið koma baráttunni gegn óæskilegum loftslagsbreytingum við. Svarið er þríþætt: Í fyrsta lagi hegða kynin sér misjafnlega og hafa mismunandi áhrif á umhverfið. Konur sem neytendur og stjórnendur neyslu heimilanna geta t.d. haft önnur og meiri áhrif en karlar til að draga úr notkun óæskilegra efna. Í öðru lagi hefur komið í ljós að konur greiða hamfarir sem dunið hafa á jarðarbúum mun dýrara verði en karlar, jafnvel með lífinu sjálfu. Í þriðja lagi blasir við sú staðreynd að á meðan loftslagsbreytingarnar varða líf og framtíð bæði kvenna og karla eru það fyrst og fremst karlar sem sitja við samningaborðin og móta framtíðarstefnu mannkyns. Það er á ábyrgð okkar allra að snúa blaðinu við og bjarga jörðinni. Því þarf að vekja bæði konur og karla til vitundar um ábyrgð okkar en jafnframt að taka tillit til mismunandi stöðu kynjanna í hinum ýmsu ríkjum heims.
________________________________________
EGILSSTAÐIR: 14. apríl kl. 13:00-16:00 -Hótel Hérað, Miðvangi 5-7
Kynjamyndir á vinnumarkaði
Þórdís Þórðardóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræðum við Menntavísindasvið Háskóla íslands
Í erindi sínu mun Þórdís fjalla um hvernig ríkjandi hugmyndir í samfélaginu binda okkur á klafa vanahugsunar og hindra að við beitum kröfum okkar til að vinna gegn hvers kyns óréttlæti og misrétti sem stríðir gegn réttlætiskennd fólks. Kynskiptur vinnumarkaður viðheldur launamismun kynjanna og karlastörfum er skipað ofar. Hugmyndir karla sem fyrirvinnur og kvenna sem kjölfestu tilfinningalífs og samskipta á heimilum hafa reynst ansi drjúgar til að viðhalda gamaldags hugmyndum um vinnuframlag kynjanna með þeim afleiðingum að launabil kynjanna á Íslandi hefur ?aukist? hin síðustu ár. Í hverju samfélagi mótast hugmyndir um verðgildi starfa í samhengi við ríkjandi menningu. Störfin njóta mismunandi virðingar og þeir sem gegna þeim fá ólíkan virðingarsess sem meðal annars má greina á því að ódýrasta vinnuaflið eru oftast konur af erlendum uppruna. Tveir þriðju hlutar karla og kvenna á Íslandi vinna störf sem flokkast sem hefðbundin kvenna- eða karlastörf en þriðjungur vinnur störf sem ekki eru sérstaklega eyrnamerkt öðru hvoru kyninu. Þessi skipting í kvenna- og karlastörf á drjúgan þátt í að viðhalda viðhorfum sem ýta undir launamismun kynjanna.
Kvenrembur og karlrembur - munurinn á lagalegu og menningarlegu jafnrétti!
Stefanía G. Kristinsdóttir, framkvæmdastjóri Þekkingarnets Austurlands
Í erindinu verður horft til birtingarmynda (ó)jafnréttis í samfélaginu, hvernig birtist það í samskiptum, félagsmálum, stjórnmálum og fyrirtækjum? Geta konur og karlar áttað sig á eigin fordómum" eða staðalímyndum af kynjunum? Hvað er átt við með strákastelpa og stelpustrákur? Hvað þarf að gera til að rétta kúrsinn lagalega og félagslega? Hversu góðar/slæmar eru þær lausnir? Í erindinu verður stuðst við umfjöllun í bókunum Það er til staður í helvíti fyrir konur sem hjálpa ekki hver annarri" eftir Liz Marklund og Lottu Snickare og Játningar Karlrembunnar" eftir Lars Einar Engström. Tekin verða dæmi um hvernig má vinna gegn staðalímyndum og/eða nýta sér þær í starfi og leik.
________________________________________
ÍSAFJÖRÐUR: 20. apríl kl. 13:00-16:00 - Edinborgarhúsið, Aðalstræti 7
Skreppur og Pollýanna - Samræming fjölskyldulífs og atvinnu, kynhlutverk og eðli starfa
Dr. Gyða Margrét Pétursdóttir, aðjúnkt í kynjafræði við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands
Íslenskar konur vinna að jafnaði 36 stundir á viku sem er sambærilegt vinnutíma norskra karla. Íslenskir karlar vinna lengri vinnudag. Á sama tíma er fæðingartíðni á Íslandi með því mesta sem gerist í Evrópu auk þess sem atvinnuþátttaka íslenskra kvenna er meiri en víðast hvar í hinum vestræna heimi. Konur bera meginábyrgð á umönnun barna og umsjón heimilis, þó þær séu mun oftar í störfum sem bjóða upp á minni sveigjanleika og sjálfræði en störf karla sem ættu þar af leiðandi að eiga auðveldara með en konur að samræma fjölskyldulíf og atvinnu. Á móti kemur að margir karlar virðast sækja tilverurétt sinn í vinnuna: Ég er af því að ég vinn" og til þess er ætlast að þeir eyði sem mestum tíma á vinnustaðnum. Í erindinu verður sjónum beint að samræmingu fjölskyldulífs og atvinnu, kynhlutverkum og eðli starfa.
Kerfið og kynin: Líðan og virkni á unglingastigi
Kristján Ketill Stefánsson, stundakennari og doktorsnemi við Háskóla Íslands
Í þessum fyrirlestri verður rýnt í nýjar heildarniðurstöður úr sjálfsmatskerfinu Skólapúlsinn www.skolapulsinn.is. Á yfirstandandi skólaári hafa 58 grunnskólar tekið þátt í að meta líðan, virkni og skóla- og bekkjaranda sinnar stofnunar. Niðurstöður Skólapúlsins sýna athyglisverðan mun á líðan og viðhorfum drengja og stúlkna almennt. Í fyrirlestrinum verða jafnframt kynntar samtímakenningar um uppeldi og þroska drengja og stúlkna sem settar verða í samhengi við niðurstöður úr Skólapúlsinum. Sérstaklega verður rætt um niðurstöðurnar í ljósi ólíkra samfélagsgerða á Íslandi.
________________________________________
REYKJAVÍK: 28. apríl kl. 13:00-16:00 - BSRB húsið, Grettisgata 89
Kastljós á kyn: Fjármagn til karla og kvenna í kynjaðri hagstjórn
Silja Bára Ómarsdóttir, aðjúnkt við Stjórnmálafræðideild Háskóla Íslands og situr í verkefnisstjórn um kynjaða hagstjórn
Kynjuð hagstjórn er leið til þess að samþætta kynjasjónarmið í fjárlaga- eða fjárhagsáætlanagerð. Ríkisstjórnin hefur sett sér það markmið að innleiða kynjaða hagstjórn á næstu árum, en hún getur einnig nýst á öðrum stjórnunarstigum. Í þessu erindi verður fjallað um hugmyndafræði kynjaðrar hagstjórnar og hvað hún felur í sér. Einkum verður farið yfir hvernig má nota þessa aðferðafræði til að varpa ljósi á ólíka stöðu kynjanna í samfélaginu, en með því að rýna í útgjöld er forgangsröðun hins opinbera dregin fram. Með því að vinna úr þeim upplýsingum sem koma fram er svo hægt að vinna að úrbótum.
Ofbeldi í skjóli einkalífs
Fríða Rós Valdimarsdóttir mannfræðingur og höfundur skýrslunnar Líka á Íslandi, um umfang og eðli mansals" og Kristbjörg Kristjánsdóttir kynjafræðingur og fyrrum starfskona Stígamóta.
Í fyrirlestrinum verða reifaðar tölfræðilegar staðreyndir um þolendur og gerendur kynferðisofbeldi. Farið verður yfir birtingamyndir kynferðisofbeldis og hvernig þær tengjast allar saman. Með nýjum lögum um vændi hefur skapast nýr veruleiki á Íslandi og verður farið yfir sýn á vændi áður og nú. Einnig verður fjallað um sérstöðu fyrirbærisins vændis og lagðar fram spurningar eins og af hverju er vændi starfsgrein en hvergi kennd eða krakkar hvattir til að starfa við það. Við fjöllum um mikilvægi þess að minnka eftirspurn eftir vændi til að vinna gegn því og hvaða reynsla hefur fengist í öðrum löndum með sambærilegum lögum og við innleiddum í fyrra. Að lokum verður bornar fram vangaveltur um vændiskonur og vændiskaupendur.