Kallað eftir framkvæmda- og aðgerðaáætlunum stjórnvalda

Árið 1985 fullgilti Ísland samning Sameinuðu þjóðanna um Afnám allrar mismununar gagnvart konum en hann var samþykktur á vettvangi SÞ árið 1979. Síðan þá hafa fulltrúar íslenskra stjórnvalda verið kallaðir nokkrum sinnum fyrir CEDAW nefndina til að gera grein fyrir því hvernig staðið hefur verið við samninginn. Þetta er eins konar yfirheyrsla þar sem fyrst er flutt skýrsla landsins en síðan spyrja nefndarmenn fulltrúana spjörunum úr um ýmis atriði sem þeim finnst að betur megi fara eða hvers vegna ekki sé búið að bæta úr því sem athugasemdir voru gerðar við síðast. Fulltrúar Íslands voru kallaðir fyrir nefndina 17. febrúar síðast liðinn og nú eru athugasemdir CEDAW nefndarinnar komnar fram. Kvenréttindafélag Íslands hefur vakið athygli á þeim og þær kalla sannarlega á umræður. Athugasemdirnar eru fjölmargar en sérstaklega er lögð áhersla á eftirfarandi: 

1.að stjórnvöld samþykki tafarlaust aðgerðaáætlun gegn kynferðisofbeldi og heimilisofbeldi sem taki tillit til þarfa kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna, og tryggi fjármagn og mannafl til að lögregluembætti út um allt land geti tekið upp verklag lögreglunnar í Reykjavík í ofbeldismálum (verkefnið „Að halda glugganum opnum“).

2.að grípa tafarlaust til aðgerða, jafnvel sértækra aðgerða eins og kynjakvóta, til að fjölga hratt konum innan lögreglunnar, í Hæstarétti, og í háttsettum stöðum innan utanríkisþjónustunnar (stöðu sendiherra)
Aðrar helstu athugasemdir og tilmæli eru: 
•að samþykkja tafarlaust aðgerðaáætlun í jafnréttismálum;
•að tryggja fjármögnun Jafnréttisstofu og íhuga flutning hennar til Reykjavíkur;
•að breyta/skýra hegningarlöggjöfina og banna stafrænt ofbeldi og sálrænt ofbeldi;
•að tryggja aðgengi allra kvenna að kvennaathvarfi, líka kvenna úti á landsbyggðinni, kvenna með fötlun og kvenna af erlendum uppruna;
•að opna bráðamóttökur kynferðisofbeldis út um allt land;
•að fjármagna aðgerðir gegn mansali;
•að rannsaka stöðu kvenna sem starfa á svokölluðum „kampavínsklúbbum“;
•að íhuga að gera kvenréttindi (kynjafræði) að skyldufagi í grunnskólum og menntaskólum;
•að tryggja að námsbækur sýni raunhæfa mynd af stöðu og hlutverki kvenna í sögunni;
•að athuga hvort hægt sé að víkka út lögin um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja svo þau nái til fyrirtækja með færri en 49 starfsmenn,
•að tryggja að lögreglukonur séu ekki áreittar kynferðislega í starfi sínu;
•að tryggja barnagæslu milli 9 mánaða og 2 ára;
•að tryggja nægilega fjármögnun til fæðingarorlofssjóðs og hækka hámarksgreiðslur úr honum;
•að mennta heilbrigðisstarfsmenn sem taka á móti konum sem sækja um fóstureyðingu og tryggja það að móttökur þeirra séu ekki til þess fallnar að letja konur til að fara fóstureyðingu;
•að athuga reglugerðir opinberra menningarsjóða og leita leiða til að tryggja að opinbera styrkveitingar til menningarmála skiptist jafnt milli kynjanna;
•að rannsaka stöðu kvenna af erlendum uppruna;
•að tryggja fjármagn til Fjölmenningarseturs og auka aðgengi að þjónustu þess.

Það er því heldur betur verk að vinna ef við ætlum að standa við CEDAW samninginn og halda sæti okkar sem ein þeirra þjóða sem leggja mikla áherslu á kynjajafnrétti og mannréttindi almennt. 

Hér má lesa nánar um málið