- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Samkvæmt 18. gr. laga nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla skal endurskoða jafnréttisáætlanir á þriggja ára fresti. Í ljósi þess kallar Jafnréttisstofa nú eftir jafnréttisáætlunum frá grunnskólum landsins. Innköllunin nær til rúmlega 170 skóla sem flestir brugðust við sama erindi fyrir rúmlega þremur árum.
Segja má að jafnréttisáætlanir skóla séu tvíþættar, annars vegar er það skólinn sem vinnustaður og hins vegar skólinn sem menntastofnun. Sem vinnustaður þarf skóli, með 25 starfsmenn eða fleiri, að setja sér aðgerðabundna áætlun um hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.-22. gr. jafnréttislaga. Sem menntastofnun þarf skólinn, óháð starfsmannafjölda, að uppfylla 22. og 23. gr. laganna gagnvart nemendum sínum. 22. gr. tekur á kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni og kynferðislegri áreitni og 23. gr. fjallar um menntun og skólastarf.
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með lögum nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Eftirlitið felst m.a. í innköllun jafnréttisáætlana, frá fyrirtækjum og stofnunum með 25 starfsmenn eða fleiri, og innköllun skýrslna um framgang mála.
Á árunum 2013-2015 kallaði Jafnréttisstofa eftir jafnréttisáætlunum frá skólum á öllum skólastigum. Þegar innköllun lauk vorið 2015 höfðu 96% grunnskóla skilað umbeðnum gögnum sem verður að teljast góður árangur.
Vorið 2017 ákvað Jafnréttisstofa að senda grunnskólunum vefkönnun í stað þess að kalla eftir skýrslum um framgang jafnréttismála. Vefkönnunin innihélt 17 spurningar sem varpa áttu ljósi á stöðu jafnréttismála innan skólanna. Tæplega helmingur grunnskólanna brást við könnuninni. Niðurstöðurnar benda til að jafnréttisáætlanir skólanna, sem flestar eru vel unnar og vandaðar, séu heldur máttlitlar þegar kemur að framkvæmd.