- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Í tilefni af Kvennafrídeginum 25. október ætla karlar á Ísafirði og víðar á landinu að sýna að þeir styðji jafnréttisbaráttuna með því að klæðast einhverju rauðu þennan dag, hvort sem það er rautt bindi, hatti, bol, skyrtu eða einhverju öðru. Þetta gera þeir undir slagorðinu Karlar sýna lit. Er það liður í átaki sem Skotturnar á norðanverðum Vestfjörðum hafa hrint úr vör. Í umræðu, aðgerðum og baráttu fyrir jafnrétti kynjanna hafa karlar oft verið lítt sýnilegir. Þetta er þó ekki til marks um að karlmenn styðji ekki almennt jafnréttisbaráttuna. Þvert á móti eru langflestir karlmenn jafnréttissinnar og vilja leggja sitt að mörkum að byggja upp réttlátt og sanngjarnt þjóðfélag, segir Matthildur Helgadóttir Jónudóttir ein af Skottunum.
Á meðfylgjandi mynd má meðal annars sjá Daníel Jakobsson bæjarstjóra Ísafjarðarbæjar, Guðjón Þorsteinsson, Benedikt Sigurðsson þjálfara í Bolungarvík, Guðna Á. Einarsson á Suðureyri og Guðmund Hjaltason tónlistarmann á Ísafirði svo einhverjir séu nefndir. Þeir ætla að klæðast rauðu á kvennafrídaginn og hvetja aðra karla út um allt land eða allan heim til að taka þátt. Á veggspjöldunum sem fara í dreifingu í næstu viku verður eftirfarandi áskorun: Með því að vera í rauðu á kvennafrídaginn 25. október styðjum við konur í jafnréttisbaráttunni.