- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Fimmtudaginn 30. ágúst verður haldin í Kornhlöðunni við Lækjarbrekku ráðstefna um karla og ofbeldi í nánum samböndum. Á ráðstefnunni verður kynnt norska verkefnið Alternative to violence, auk þess sem íslenskir sérfræðingar miðla af reynslu sinni.Marius Råkil er norskur sálfræðingur og forsvarsmaður verkefnisins Alternative to Violence. Hann mun kynna verkefnið ítarlega og reynsluna af því. Í tuttugu ár hafa aðstandendur verkefnisins unnið að því að svara eftirfarandi spurningum: Af hverja beita karlmenn ofbeldi, hvaða áhrif hefur ofbeldið á fórnarlömbin og hvernig vinna karlmenn sig úr ofbeldinu? Kynningin fer fram á ensku.
Að loknu erindi Råkil verða nokkrir íslenskir sérfræðingar með erindi. Fyrst er það Dr. Berglind Guðmundsdóttir, sálfræðingur og mun hún lýsa þeirri þjónustu sem þolendur heimilisofbeldis fá hjá Áfallamiðstöð slysa- og bráðadeildar LSH. Þá verður Rannveig Þórisdóttir félagsfræðingur hjá Lögregluembætti höfuðborgarsvæðisins með yfirlit yfir hvað gögn lögreglunar segja okkur um heimilisofbeldi. Að lokum munu Andrés Ragnarsson og Einar Gylfi Jónsson sálfræðingar kynna verkefnið Karlar til ábyrgðar, sem þeir hafa stýrt og greina frá niðurstöðum mats gerenda og þolenda á árangri þess. Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra ávarpar fundargesti í upphaf fundar.
Ráðstefnan er hluti af Evrópuverkefninu ,,Ár jafnra tækifæra? og er öllum opin án endurgjalds. Skráning á ráðstefnuna fer fram hjá Jafnréttisstofu í tölvupósti eða síma 460 6200 fyrir þriðjudaginn 28. ágúst. Dagskráin hefst klukkan 13:00 og lýkur uppúr 16:30.
Karlar til ábyrgðar er verkefni sem hófst árið 1998 og var komið aftur af stað í fyrra eftir fimm ára hlé. Þetta er eina sérhæfða meðferðaúrræðið hér á landi fyrir karla sem beita ofbeldi á heimilum. Um er að ræða einstaklingsmeðferð og hópmeðferð hjá sálfræðingum. Þótt karlar séu ekki einir um að beita ofbeldi er meðferðarúrræðið aðeins fyrir þá. Upplýsingar um viðtalsbeiðnir eru í síma: 555 3020.