Kennaranemar kalla eftir aukinni fræðslu um kynjajafnrétti

Kennaranemar við Háskóla Íslands hafa mikinn áhuga á breyta staðalmyndum kynjanna en margir hafa takmarkaða þekkingu á nauðsynlegum hugtökum. Fréttin birtist í Skólavörðunni veftímariti um skóla- og menntamál þann 14. febrúar sl.

Áhugi kennaranema við Háskóla Íslands á fræðslu um kynjajafnrétti er hins vegar mjög mikill og 87 prósent þeirra telja að auka þurfi fræðslu um kynjajafnrétti í náminu og yfir 70 prósent hafa mikinn áhuga á að sækja sérstakt námskeið um kynjajafnrétti.

 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum rannsóknar sem Guðný S. Guðbjörnsdóttir, prófessor við uppeldis- og menntunardeild Menntavísindasviðs HÍ, og Þórdís Þórðardóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræði við Menntavísindasvið HÍ, gerðu á afstöðu, þekkingu og áhuga kennaranema á jafnréttismálum með áherslu á kynjajafnrétti.

Niðurstöður rannsóknarinnar eru að mati Guðnýjar og Þórdísar skýrt ákall um breytingar, að komið verði til móts við áhuga kennaranema á jafnréttisfræðslu.

Guðný og Þórdís hafa skrifað ítarlega og áhugaverða grein um niðurstöður rannsóknarinnar sem ber titilinn Kynjajafnrétti og kennaramenntun – ákall kennaranema um aukna fræðslu, og birt er á vef Netlu – veftímarits um uppeldi og menntun.

Forþekking lítil en áhugi mikill
Markmið rannsóknarinnar var að kanna hvernig staðið er að fræðslu um jafnréttismál á Menntavísindasviði HÍ og hvernig viðhorfum, þekkingu og áhuga nemenda á kynjajafnrétti er háttað. Höfundarnir segja að reynt hafi verið að komast að forþekkingu nemenda á kynjajafnréttisfræðum, þekkingu þeirra á kynjafræðilegum hugtökum og áhuga þeirra á fræðslu um kynjajafnrétti. Þá var leitast við að kanna viðhorf þeirra til kynjajafnréttis. Kennaranemarnir voru meðal annars spurðir út í viðhorf til staðalmynda kynjanna og hvaða efnisþættir þeim þættu mikilvægastir á sviði kynjajafnréttis.

Niðurstöður rannsóknarinnar gefa til kynna að forþekking þátttakenda í kynjafræði var ekki mikil. Langflestir, eða 72 prósent, höfðu ekki kynnst kynjafræði í fyrra námi. Nokkrir, eða 3 prósent, höfðu tekið námskeið í kynjafræði í framhaldsskóla og 11 prósent höfðu kynnst kynjafræði í fyrra námi hjá einstökum kennurum.

Þá var könnuð þekking kennaranema á grunnhugtökum um kynjajafnrétti og kynjafræði; spurt um var um jafnrétti, karlmennsku, kynbundnar staðalmyndir, femínisma, kyngervi, gagnkynhneigt forræði, mótunarhyggju og kynjakerfi. Í greininni segir: „...mikill meirihluti kennaranema telur sig þekkja fyrstu fjögur hugtökin jafnrétti, karlmennska, kynbundnar staðalmyndir og femínisma mjög vel eða frekar vel. Hins vegar telja aðeins rúm 50% nemanna sig þekkja hugtakið kyngervi mjög eða frekar vel, og enn færri önnur hugtök eins og gagnkynhneigt forræði, mótunarhyggju eða kynjakerfi.“

Höfundar greinarinnar telja niðurstöðurnar gefa vísbendingu um að bæta þurfi kennslu í grunnhugtökum kynjafræðinnar á Menntavísindasviði. Ekki skortir áhuga kennaranema en um og yfir 70 prósent þátttakenda hafa mikinn áhuga á að sækja sérstakt námskeið um kynjajafnrétti. Í niðurlagi greinarinnar segjast þær vona að rannsóknin verði kennurum „hvatning til að efla kynjajafnréttisfræðslu í kennaranáminu, í samræmi við þá sterku ósk sem kennaranemar hafa þar um. Nýjar jafnréttisáætlanir Háskóla Íslands og Menntavísindasviðs eru góð tæki og vísbendingar um slíkan vilja. Þeim þarf að framfylgja af mikilli festu í kennaranáminu og í Háskóla Íslands almennt,“ segir orðrétt í greininni.

Grein Guðnýjar og Þórdísar

Netla -- veftímarit um uppeldi og menntun

Viðfangsefni: Kynjafræði, Jafnréttisfræðsla, Kennaranám, Kynjajafnrétti

Fréttin birtist í Skólavörðunni veftímariti um skóla- og menntamál þann 14. febrúar sl.