- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Sex stjórnmálaflokkar buðu fram lista í öllum kjördæmum. Af 756 frambjóðendum á landinu öllu voru 399 karlar (52,8%) og 357 konur (47,2%). Í þremur efstu sætum framboðslistanna var hlutfall kvenna lægra, eða 43,5%.
Konur meirihluti varaþingmanna
Hlutfall kvenna meðal kjörinna þingmanna var enn lægra, eða 31,7%. Kjörnar voru 20 konur og 43 karlar, einni konu fleiri en í kosningunum 2003. Konur eru hins vegar meirihluti varaþingmanna, eða 39 (61,9%), á móti 24 körlum (38,1%). Sé fjöldi þingmanna og varaþingmanna tekinn saman var fjöldi karla 67 (53,2%) og kvenna 59 (46,8%).
Fleiri karlar en konur voru í framboði í fjórum kjördæmum landsins, en konur voru fleiri en karlar í tveimur. Aðeins í einu kjördæmi, Reykjavíkurkjördæmi suður, voru fleiri konur en karlar í þremur efstu sætum listanna. Kynjamunurinn var mestur í Suðurkjördæmi, þar sem tæp 67% efstu frambjóðenda voru karlar.
Landsbyggðin sker sig úr
Munur var á kynjahlutfalli á höfuðborgarsvæði og landsbyggð þegar litið er til frambjóðenda í 1.-3. sæti. Á höfuðborgarsvæðinu var hlutfall kynja í þessum sætum jafnt, en á landsbyggðinni voru 37% frambjóðenda í efstu sætunum konur, sem þýðir að kvenframbjóðendur þar voru tiltölulega neðarlega á framboðslistum.
Hlutfall kvenna á þingi hækkaði smám saman fram til ársins 1999 þegar 22 konur voru kjörnar á þing, eða 35% allra þingmanna. Í kosningunum 2003 fækkaði þeim í 19, eða í 30%. Hefur konum fjölgað hlutfallslega hraðar og meira meðal frambjóðenda en kjörinna fulltrúa á undanförnum áratugum.
Nánari greiningu á öllum þessum tölum og öðrum niðurstöðum er hægt að finna á vef Hagstofunnar.