- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Hlutur kvenna hefur aldrei verið jafnmikill á Alþingi Íslendinga og nú, en tæp 43% þingmanna sem náðu kjöri í nýafstöðnum þingkosningum eru konur. Hlutfallið var 31,2% eftir síðustu kosningar. Þrír þingflokkar hafa jafnt hlutfall kvenna og karla.Ísland er nú í fjórða sæti í heiminum hvað varðar hlutfall kvenna á þjóðþingum, en var í fimmtánda sæti fyrir kosningarnar. Aðeins Rúanda, Svíþjóð og Kúba eru nú með hærra hlutfall kvenna á þingi.
Hlutfall kynjanna er jafnt í þremur þingflokkum, eða hjá Samfylkingu, Vinstri grænum og Borgarahreyfingunni. Tíu konur og tíu karlar setjast á þing fyrir Samfylkinguna, sjö konur og sjö karlar fyrir VG, og tvær konur og tveir karlar fyrir Borgarahreyfinguna. Hins vegar eru konur aðeins fimm af 16 þingmönnum Sjálfstæðisflokks eða 31,25% og þrjár af níu þingmönnum Framsóknarflokks eða 33,3%.
Kynjahlutfallið í þingflokkum Samfylkingarinnar og vinstri grænna er í samræmi við kynjahlutfall á framboðslistum þessara flokka, en hjá báðum flokkunum voru konur 49% frambjóðenda en karlar 51%. Kynjahlutfall á framboðslistum var einnig jafnt hjá Framsóknarflokknum og nokkuð jafnt hjá Sjálfstæðisflokknum, en það skilaði sér ekki í jöfnu kynjahlutfalli í þingflokkum þeirra. Karlar voru fleiri á framboðslistum Borgarahreyfingarinnar en konur, eða 60% á móti 40%. Nánar má lesa um kynjahlutfall á framboðslistum flokkanna í samantekt Jafnréttisstofu.