- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa gefur út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2019, á alþjóðlegum baráttudegi kvenna fyrir friði og jafnrétti. Bæklingurinn Konur og karlar á Íslandi 2019 kemur út á íslensku og ensku og hefur að geyma tölfræðilegar upplýsingar þar sem varpað er ljósi á ólíka stöðu karla og kvenna eins og hún birtist á ýmsan hátt í íslensku samfélagi. Í honum kemur m.a. fram að:
Atvinnuþátttaka kvenna var tæp 78% árið 2018, þátttaka karla var rúm 85%. Óleiðréttur launamunur kynjanna var rúm 15% árið 2017 en tæp 14% ef aðeins launafólk í fullu starfi er skoðað. Konur eru nú 38% alþingismanna og 47% kjörinna sveitarstjórnarmanna en í mörgum öðrum áhrifastöðum er hlutur kvenna lægri. Í byrjun árs 2019 voru konur 36% í stöðu framkvæmdastjóra sveitarfélaga og tæp 42% forstöðumanna ríkisstofnana.
Hlutfall kvenna af framkvæmdastjórum fyrirtækja var 22% árið 2017, 24% meðal stjórnarformanna og 26% stjórnarmanna. Af átta hæstaréttardómurum var ein kona en konur voru 38% héraðsdómara sem eru alls 42 og tæp 47% dómara í Landsrétti sem skipaður var 15 dómurum í árslok 2018.
Bæklingurinn Konur og karlar á Íslandi 2019 er gefinn út í samstarfi við Hagstofu Íslands og forsætisráðuneytið. Þar eru teknar saman upplýsingar sem gefa vísbendingar um stöðu kvenna og karla í samfélaginu. Einnig eru myndrit um mannfjölda, fjölmiðla, menntun, vinnumarkað, laun og tekjur og áhrifastöður.