- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kvenfélagasamband Íslands fagnar 80 ára afmæli sínu í dag 1. febrúar. Félagið var stofnað árið 1930 sem sameiningar- og samstarfsvettvangur kvenfélaganna í landinu sem þá þegar voru orðin fjölmörg.
Fyrsta kvenfélagið, Kvenfélag Rípurhrepps, var stofnað árið 1869. Konur hafa síðan þá stofnað hundruð kvenfélaga með það að markmiði að bæta samfélagið, sérstaklega hvað varðar málefni barna, kvenna og fjölskyldna.
Má segja að konur hafi með því tekið völdin í sínar hendur löngu áður en þær fengu aðgengi að stjórnkerfinu með kjörgengi og kosningarétti.
Störf kvenfélagskvenna eru og hafa verið samfélaginu öllu afar mikilvæg þó ekki hafi þau alltaf farið hátt eða mikið farið fyrir þeim í fjölmiðlum.
Það er því löngu tímabært að sérstakur dagur sé helgaður kvenfélagskonum og hefur formannaráð Kvenfélagasambands Íslands einhliða lýst 1. febrúar, ár hvert, Dag kvenfélagskonunnar."
Kvenfélagasambandið hvetur allar kvenfélagskonur til að halda daginn hátíðlegan og landsmenn alla til að heiðra kvenfélagskonur þennan dag, segir í fréttatilkynningu.
Í tilefni dagsins verður opið hús í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum, Túngötu 14 kl. 17 - 19 en stutt hátíðadagskrá hefst kl.18. Boðið verður upp á kaffi og kökur að gömlum íslenskum sið. Allir eru velkomnir meðan húsrúm leyfir og eru konur hvattar til að koma og kynna sér störf kvenfélagnna og leggja þeim lið. Kvenfélagskonur um land allt munu halda uppá afmælið hvert með sínum hætti á afmælisárinu. Aðalverkefni afmælisársins er Húfuverkefni KÍ sem snýst um að kvenfélagskonur prjóna húfur, sem allir nýburar sem fæðast á Íslandi á afmælisárinu fá að gjöf, ásamt hlýrri kveðju frá KÍ.
Kvenfélögin innan KÍ eru nú tæplega 200 og starfa innan 17 héraðssambanda um land allt. Kvenfélagasambandið gefur út tímaritið Húsfreyjuna og rekur Leiðbeiningastöð heimilanna sem veitir gjaldfrjálsa símaráðgjöf og upplýsingamiðlun um flest það er lítur að heimilishaldi.
Kvenfélagasamband Íslands er aðili að Alþjóðasambandi dreifbýliskvenna, ACWW og Norrænu kvennasamtökunum, NKF.