- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Kvennasáttmáli Sameinuðu þjóðanna varð 30 ára þann 18. desember síðastliðinn. Í tilefni þess hefur Mannréttindaskrifstofa Íslands gefið út nýtt fræðslurit um Kvennasáttmálann, í samstarfi við Jafnréttisstofu, félags- og tryggingamálaráðuneyti, UNIFEM á Íslandi og utanríkisráðuneyti. Með útgáfu bókar um Kvennasáttmálann er ætlunin að stuðla að aukinni þekkingu á réttindum kvenna og þar með stuðla að samfélagi þar sem konur njóta jafnréttis, mannhelgi, borgaralegra og stjórnmálalegra réttinda óttaleysis um líf og afkomu.
Kvennasáttmálinn tekur til flestra þátta daglegs lífs. Með aðild að sáttmálanum skuldbinda íslensk stjórnvöld sig til að efla stefnu, lög, stofnanir og viðhorf sem tryggja jafnrétti kynjanna; sáttmálinn kveður á um aðgerðir til að koma í veg fyrir mismunun gagnvart konum á öllum sviðum mannlífsins.
Enda þótt staða íslenskra kvenna sé sterk og Ísland sé í fyrsta sæti á lista Alþjóðaviðskiptaráðsins yfir þær þjóðir sem náð hafa hvað mestum árangri í jafnréttismálum þá er staðreyndin sú að enn er langt í land. Hefðbundnar staðalímyndir af hlutverkum kynjanna eru rótgrónar, umtalsverður kynbundinn launamunur er viðvarandi og konur eiga á brattann að sækja þegar kemur að áhrifastöðum í þjóðfélaginu. Nærri fimmtungur íslenskra kvenna hefur orðið fyrir ofbeldi af hendi maka eða fyrrverandi maka og meira en þúsund konur leita sér hjálpar hjá Kvennaathvarfi og Stígamótum ár hvert. Aðeins lítill hluti þessara ofbeldismála fer fyrir dóm og fæstum þeirra lýkur með því að réttlætinu er fullnægt.
Kynjamisrétti á Íslandi er þó ekki óbreytanleg staðreynd. Margt hefur áunnist og samfélag þar sem konur og karlar njóta sömu tækifæra er ekki fjarlægur draumur. Við getum tryggt að allar dætur, mæður, systur, ömmur og vinkonur á Íslandi njóti fullra réttinda. Mannréttindi eiga upptök sín í hug og hjarta hverrar manneskju, í okkar nánasta umhverfi. Hvert og eitt okkar ber ábyrgð á að halda jafnrétti í heiðri á heimilinu, í skólanum, á vinnustaðnum; hafi mannréttindi ekki merkingu á þessum stöðum, þá hafa þau litla merkingu annars staðar.
Til þess að fólk geti beitt sér í þágu jafnréttis er brýnt að það kunni skil á mannréttindum. Þekking á ákvæðum Kvennasáttmálans er mikilvæg í þessu sambandi og ein forsenda mannvæns samfélags.
Nálgast má bókina hjá Mannréttindaskrifstofu, UNIFEM og Jafnréttisstofu.
Hér má sjá ritið á pdf.