Í tilefni 16 daga átaks gegn kynbundnu ofbeldi verður boðið upp á sýningar á myndinni „Pray the devel back to hell“. Fyrri sýning myndarinnar fer fram í Sambíóinu á Akureyri miðvikudaginn 30. nóvember kl.18 en síðari sýningin verður í BíóParadís í Reykjavík fimmtudaginn 8.desember kl. 20. Um er að ræða heimildamynd um baráttu kvenna fyrir friði í Líberíu en þar ríkti blóði drifin borgarastyrjöld í rúm tuttugu ár. Myndin hefur hlotið einróma lof og fjölda viðurkenninga. Það þarf hugrekki og sterkan vilja til að hafa áhrif á samfélag þar sem ofbeldismenning hefur verið ríkjandi eins lengi og í Liberíu. Tvær þeirra kvenna sem leiddu aðgerðirnar í Líberíu hlutu friðarverðlaun Nóbels 2011, þær Ellen Johnson Sirleaf og Leymah Gbowee fyrir baráttu þeirra fyrir öryggi kvenna og réttindum þeirra til að taka þátt í friðarviðræðum.