- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Föstudaginn 15. janúar verður haldið málþing um kyn og völd íslenskum stjórnmálum og efnahagslífi á vegum Rannsóknastofu í kvenna- og kynjafræðum (RIKK), Jafnréttisstofu og EDDU öndvegisseturs. Á málþinginu verða kynntar niðurstöður íslenska hluta samnorræna rannsóknaverkefnisins Kyn og völd á Norðurlöndum. Verkefnið var unnið af norrænu kvenna- og kynjarannsóknastofnuninni NIKK að ósk Norrænu ráðherranefndarinnar. Umsjón með íslenskum hluta rannsóknarinnar hafði RIKK. Málþingið fer fram á Háskólatorgi Háskóla Íslands, stofu 102, kl. 14.30-16.30. Kyn og völd er fyrsta verkefnið þar sem valdastöður í stjórnmálum og efnahagslífi á Norðurlöndum og norrænum sjálfstjórnarsvæðum eru kortlagðar og bornar saman, en 20 fræðimenn rannsökuðu þróunina á síðustu 15 árum og lögðu mat á aðgerðir og lagasetningar sem gripið hefur verið til í jafnréttismálum.
Á meðan konur á Norðurlöndunum hafa styrkt stöðu sína í stjórnmálum hefur konum lítið sem ekkert fjölgað í stjórn atvinnulífsins en þar ráða karlmenn enn lögum og lofum. Undantekning frá þeirri reglu er Noregur þar sem gripið var til lagasetningar til að fjölga konum í stjórnum atvinnulífsins. Stjórnarfrumvarp um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja bíður nú afgreiðslu á Alþingi.
Dagskrá:
Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra flytur ávarp
Guðbjörg Linda Rafnsdóttir, prófessor í félagsfræði. Kyn og völd í íslensku atvinnu- og efnahagslífi.
Rósa Guðrún Erlingsdóttir, stjórnmálafræðingur. Stjórnmálaþátttaka kvenna og þróun íslenskrar jafnréttislöggjafar.
Að loknum erindum munu fulltrúar atvinnulífs og stjórnmála bregðast við niðurstöðum rannsóknarinnar.
Umræðum stjórnar Auður Styrkársdóttir, stjórnmálafræðingur og forstöðumaður Kvennasögusafns Íslands.
Meðal þátttakenda í pallborði eru:
Rannveig Guðmundsdóttir, fyrrverandi alþingismaður, ráðherra og varaforseti Alþingis.
Guðrún Björk Bjarnadóttir, lögmaður hjá Samtökum atvinnulífsins,
Hilmar Veigar Pétursson, framkvæmdastjóri CCP,
Jón G. Hauksson ritstjóri Frjálsrar Verslunar,
Margrét Kristmannsdóttir, formaður Samtaka verslunar og þjónustu, fyrrv. formaður Félags kvenna í atvinnurekstri.
Þórdís Jóna Sigurðardóttir, heilsuráðgjafi hjá Manifesto og fyrrverandi stjórnarformaður Teymis.
Fundarstjóri: Irma Erlingsdóttir, framkvæmdastjóri EDDU og forstöðumaður RIKK.