- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Mikið fjölmenni var á hádegisfundi sem Jafnréttisstofa stóð fyrir, í samstarfi við Akureyrarbæ, í tilefni kvennafrídagsins 24. október. Á fundinum, sem bar yfirskriftina öryggi kvenna í þjónustustörfum, var fjallað um kynbundna og kynferðislega áreitni í þjónustustörfum. Jóhanna Berglind Bjarnadóttir og Katrín Björnsdóttir hjúkrunarfæðingar á Öldrunarheimilum Akureyrar sögðu kynferðislega áreitni ótrúlega algenga í umönnunarstörfum. Þær veltu fyrir sér hvort klámvæðing „hjúkkunnar“ og annarra þjónustustarfa hefði eitthvað með það að gera. Kynferðisleg áreitni á sér stað þegar farið er yfir mörk þess sem fyrir verður en hugsanlega treysta ekki allir sér til að setja skýr mörk. Jóhanna og Katrín sögðu að opna þyrfti umræðuna svo þeir sem verða fyrir áreiti upplifi ekki skömm heldur skilning. Einnig bentu þær á mikilvægi þess að skrá atvikin svo halda mætti utan um fjöldann og alvarleikann. En í hjúkrun, sögðu þær, er gjarnan talað um að það sem ekki er skráð hefur ekki verið gert.
Harpa Ólafsdóttir, sviðsstjóri kjaramála hjá Eflingu stéttarfélagi, tók undir með Jóhönnu og Katrínu. Hún kallaði eftir opnari umræðu um kynbundna og kynferðislega áreitni á vinnumarkaði og hvaða línur eigi að draga. Harpa sagði yfirmenn gegna þar lykilhlutverki. Hún lagði líka ríka áherslu á þátt foreldra sem réttindagæslumenn barna sinna þegar þau stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði. Einnig benti hún á að fyrirtækjum væri annt um ímynd sína og því mikilvægt að láta í sér heyrast ef hlutirnir eru ekki í lagi.
Margrét Helga Erlingsdóttir og Elín Inga Bragadóttir, talskonur Barnings lista- og hugsjónahóps ungs fólks, voru með erindi sem þær nefndu „Af framkomu við konur í þjónustustörfum“.
Þær vitnuðu í innlegg sem birst hafa á facebook síðunni „Kynlegar athugasemdir“ sem hópurinn heldur úti:
„Hef unnið mörg ár á börum og veitingastöðum og lent svo ótal sinnum í kynferðislegri áreitni. Eins og þegar maður fer með drykki á borð. Oftar en ekki þá eru nokkrir karlmenn saman sem eru að sýna sig fyrir hvor öðrum og beinlínis leika sér að mér, og sjá reiði mína en vita að ég má ekki öskra á kúnnana. Eins og síðasta sumar var ég að vinna á hóteli úti á landi og oft héngu rútubílstjórar á barnum þegar ég var að loka honum. Eitt sinn var ég óþreyjufull að klára svo ég segi einum að honum sé velkomið að taka bjórinn með sér upp á herbergi. Hann: „Get ég ekki pantað þig líka með mér upp á herbergi svona sæta og girnilega?“ Þeir hlægja. Hann: „Nei elskan þú veist að ég er að djóka í þér.“ Og ég sagði ekki neitt. Mér finnst að vinnustaðir ættu að vera með þá reglu að svona hegðun sé óásættanleg . Að starfsmenn geti farið til yfirmanns sem að þá tali við kúnnana og krefjist þess að þeir biðjist afsökunar eða fari út.“
Elín og Margrét bentu á að kynferðisleg áreitni er öll óvelkomin hegðun af kynferðislegum toga. Þetta geta t.d. verið tvíræðir brandarar, klámfengið tal, tvíbentar meiningar og líkamlegar snertingar. Það sem greinir kynferðislega áreitni frá daðri eða vinahótum er að hegðunin er ekki velkomin, ekki gagnkvæm og aldrei á jafnréttisgrundvelli. Þær veltu m.a. fyrir sér hvort kúnninn hafi alltaf rétt fyrir sér og hvort ekki þurfi að skoða og viðurkenna hugtakið öryggi í víðara samhengi. „Þykir okkur eðlileg stjórnsýsla að fjölmiðlafár sé eina úrræði valdalausra einstaklinga sem eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði og leita réttar síns? Þurfum við ekki að fara að bregðast við nýrri stöðu í markaðsvæddum heimi, sem felst í því að gera út á líkama starfsfólks og kyngera hann?“ Spurðu Elín og Margrét og kölluðu eftir samstilltu átaki Vinnueftirlitsins, stéttarfélaganna, yfirmanna og viðskiptavina.
Slóð á frétt á mbl.is
http://www.mbl.is/frettir/innlent/2014/10/26/verda_fyrir_kynferdislegri_areitni/