- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Jafnréttisstofa hefur birt myndrænt yfirlit um niðurstöður könnunar um skipun í nefndir á vegum sveitarfélaganna eftir kynjum. Niðurstöðurnar sýna að hlutfallið er á heildina nokkuð jafnt. Af 241 skipaðri nefnd eru 71 eða 29% sem uppfylla ekki skilyrði laga. Kynjahallinn er mestur í félagsmálanefndum þar sem 71% skipaðra eru konur á móti 29% karla. Mest hallar á konur í skipulagsnefndum, 37% á móti 63% karlar. Hlutfall skipaðra nefnda sem ekki uppfylla lagaskilyrðin er ekki bundið við íbúafjölda, um 30% skipaðra nefnda hjá sveitarfélögum með fleiri en 10 þúsund íbúa uppfylla ekki skilyrðin og 24% hjá sveitarfélögum með færri en 1000 íbúa. Þannig virðast fámennari sveitarfélög á heildina ekki eiga erfiðara með að uppfylla skilyrði laga.
Á grundvelli 4. gr. laga nr. 151/2020 um stjórnsýslu jafnréttismála kallaði Jafnréttisstofa í nóvember 2022 eftir upplýsingum frá sveitarfélögunum um skipun í nefndir.
Samkvæmt 28. gr. laga nr. 150/2020 um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna skal þess gætt við skipun í nefndir, ráð og stjórnir á vegum sveitarfélaga að hlutfall kvenna og karla sé sem jafnast og ekki minna en 40% þegar um fleiri en þrjá fulltrúa er að ræða. Þetta gildir einnig um stjórnir opinberra hlutafélaga og fyrirtækja sem ríki eða sveitarfélag er aðaleigandi að.
Að þessu sinni var send út stöðluð könnun til sveitarfélaganna og óskað eftir upplýsingum um kynjahlutfall í þeim nefndum sem eru skipaðar til samræmis við lögmælt verkefni þeirra. Óskað er eftir skýringum frá sveitarfélögunum í þeim tilfellum þar sem þau uppfylla ekki lagaskylduna.