Lög um kynjakvóta í stjórnum stærri hlutafélaga (ASA) voru samþykkt af norsku ríkisstjórninni árið 2003. Í lögunum er kveðið á um að hlutur hvors kyns í stjórn skuli vera að lágmarki 40%. Sissel Jensen við Norska viðskiptaháskólann (Norges Handelshöyskole) hefur í alþjóðlegu rannsóknarteymi
kannað áhrif lagasetningarinnar á jafnrétti í viðskiptalífinu.
Í Noregi hefur hlutur kvenna meðal hæstráðandi í stærri hlutafélögum (ASA) tvöfaldast eftir innleiðingu laganna. Skilgreiningin á hæstráðanda felur í sér að einstaklingur sé meðal fimm launahæstu í viðkomandi fyrirtæki eða félagi. Að sögn Jensen er aukinn hlutur kvenna meðal þeirra sem fá hæst laun í víðskiptalífinu bein afleiðing kynjakvótans en ekki tilviljun.
Áhrif lagasetningarinnar felast meðal annars í því að konur fá frekar tækifæri til að vera meðal æðstu stjórnenda meðan stjórnin sjálf er skipuð bæði körlum og konum. Það eru einnig miklar líkur á því að kvenkyns stjórnarmeðlimir skapi aukinn sveigjanleika fyrir kynsystur sínar, þ.m.t. fyrir konur með börn o.s.frv. Auðveldara verður fyrir konur að samræma fjölskyldu- og atvinnulíf þegar þær mæta skilningi. Þessar niðurstöður koma heim og saman við tilgang laganna, þ.e. að fleiri konur myndu fá tækifæri til áhrifa í viðskiptalífinu.
Lagasetningin mætti töluverðri andstöðu í Noregi og margir héldu að hlutur kynjanna kæmi til með að lagast sjálfkrafa. Eins töldu sumir að ekki fengist nægur fjöldi hæfra kvenna til þess að taka sæti í stjórn. Rannsókn Jensen og félaga sýnir hins vegar þvert á móti að stærri hlutafélögin hafa nú yfir að ráða hæfari konur í stjórnum en áður.
Umrædd lög gilda ekki um stjórnir minni hlutafélaga (AS) en vonast var til að lagasetningin hefði sjálfkrafa áhrif á þau. Einnig var vonast til þess að lögin um kynjakvóta hefðu áhrif til að minnka launamun kynjanna. Það hefur hinsvegar ekki gerst, rannsóknir sýna að lögin hafa ekki mikil áhrif annars staðar í atvinnulífinu og ekki niður skipuritið – í þeim skilningi að auka jafnrétti hjá öðrum en æðstu stjórnendum. Árið 2008 voru 8% stjórnarformanna í minni hlutafélögum konur en eru 13%í dag. Það þarf því meira til en kynjakvótann til að jafnrétti náist í viðskiptalífinu og á vinnumarkaðinum almennt, að sögn Jensen.
Mari Teigen hjá
Institutt for samfunnsforskning hefur einnig unnið að greiningu á áhrifum laganna en þeirri vinnu er ennþá ólokið. Þar er um að ræða samanburð á fyrirtækjum sem uppfylla kröfur laganna um lágmark 40% kvenna í stjórnum og þeirra sem hafa ekki náð fram kynjajafnrétti. Í bráðabirgðaniðurstöðum segir að meðal fyrirtækja sem uppfylla ákvæði laganna eru ótvírætt fleiri konur meðal æðstu stjórnenda en áður, þótt karlar séu ennþá í meirihluta.
Núverandi ríkisstjórn Noregs ætlar ekki að hreyfa við lögunum heldur leyfa þeim að sanna gildi sitt enn frekar. Einnig eru uppi áætlanir um að auka hlut kvenna í stjórnendastöðum og stjórnum og hvetja þær til að stofna eigin fyrirtæki. Ennþá hefur ekki verið greint frá því hvaða aðferðum verður beitt til að ná þeim markmiðum.
Eftir að Noregur innleiddi lög um kynjakvóta hafa auk Íslands, Spánn, Finnland, Frakkland og Holland fylgt í kjölfarið með ýmiskonar útgáfum laga. Á Íslandi er kveðið á um að hlutfall hvors kyns sé að lágmarki 40% í stjórnum lífeyrissjóða, einkahlutafélaga, hlutafélaga, samlagshlutafélaga og opinberra hlutafélaga þar sem starfa fleiri en 50 starfsmenn á ársgrundvelli.
------
Fréttin byggir á grein í Aftenposten