- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Þann 8. mars undirrituðu Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra, Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra og Jón Gnarr, borgarstjóri í Reykjavík samkomulag um lánatryggingasjóð kvenna. Hlutverk sjóðsins er að styðja konur til þátttöku og nýsköpunar í atvinnulífinu með veitingu ábyrgða á lánum.
Áherslur sjóðsins eru eftirfarandi:
Að styðja við bakið á konum sem eiga og reka smærri fyrirtæki.
Að stuðla að því að auka hlut kvenna sem eigendur og stjórnendur fyrirtækja.
Að auka aðgengi kvenna að fjármagni til fyrirtækjareksturs.
Að fjölga störfum og stuðla að nýnæmi í atvinnulífi.
Að veita ráðgjöf og stuðning við konur sem fá lán og gefa þeim kost á handleiðslu og stuðningi.
Að hvetja jaðarhópa kvenna til þátttöku í atvinnulífinu, svo sem innflytjendur.
Eignir sjóðsins nema rúmum 70 milljónum króna. Í áætlunum er gert ráð fyrir að samtals verði unnt að veita ábyrgðir fyrir allt að fimmfaldri stofnfjárhæð sjóðsins, eða um 350 milljónum króna.
Velferðarráðherra skipaði stjórn lánatryggingasjóðs kvenna í samræmi við reglur sjóðsins en verkefni hennar er að móta lánareglur í samráði við stofnaðila. Fulltrúi ráðherra er Steinunn Valdís Óskarsdóttir formaður, Jón Steindór Valdimarsson, fulltrúi iðnaðarráðherra og Sigrún Elsa Smáradóttir, fulltrúi Reykjavíkurborgar. Vinnumálastofnun mun annast umsýslu og daglegan rekstur sjóðsins og verður nánara fyrirkomulag kynnt síðar á heimasíðu stofnunarinnar.
Lánatryggingasjóður kvenna var stofnaður árið 1997 sem tilraunaverkefni félagsmálaráðuneytis, iðnaðar- og viðskiptaráðuneytis og Reykjavíkurborgar til þriggja ára. Verkefnið var framlengt um nokkur ár en árið 2005 var hætt að veita ábyrgðir úr sjóðnum. Haustið 2008 ákváðu stofnaðilar að kanna stöðu og starfsgrundvöll sjóðsins. Farið var yfir starfsemi hans frá upphafi og aflað upplýsinga um atvinnumál kvenna, stöðu þeirra gagnvart lánastofnunum og aðgangi að lánsfé. Einnig voru skoðaðar svipaðar aðgerðir erlendis, meðal annars hjá Evrópusambandinu og í Danmörku. Niðurstaðan var sú að enn sem fyrr væri brýnt að styðja konur við stofnun og rekstur fyrirtækja á sviði nýsköpunar og því hefur sjóðurinn nú verið endurvakinn.
Hér má lesa samkomulagið um starfsemi lánatryggingasjóðs kvenna.