- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Árlegur landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn á Akranesi þann 14. september 2012. Landsfundir jafnrettisnefnda eru kjörinn vettvangur fyrir fólk sem vinnur að jafnréttismálum innan sveitarfélaga til að koma saman og ræða helstu þætti jafnréttisstarfsins og kynna sér hvað er efst á baugi í öðrum sveitarfélögum. Landsfundir eru opnir fulltrúum í jafnréttisnefndum sveitarfélaga og fulltrúum þeirra nefnda sem fara með jafnréttismál, en einnig eru velkomnir á fundina pólitískir fulltrúar og starfmenn sveitarfélaganna.
Um fjörtíu fulltrúar hvaðanæva af landinu tóku þátt í fundinum á Akranesi og þóttu fyrirlestrar, umræður og vinnulotur í kjölfar þeirra mjög hagnýtar. Á fundinum voru ýmis málefni til umfjöllunar, s.s. jafnrétti á Íslandi með augum kvenna af erlendum uppruna, kynjuð fjárhags- og starfsáætlanagerð hjá Reykjavíkurborg, gerð jafnréttis- og aðgerðaráætlana og samanburður á árangri stúlkna og drengja í grunnskólum. Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á Akranesi setti fundinn og bauð gesti velkomna. Árni Múli benti sérstaklega á ábyrgð sveitarfélaga og þær kröfur sem alþjóðlegir samningar og jafnréttislöggjöfin gerir til starfsfólks sveitarfélaga.
Amal Tamimi, framkvæmdastjóri Jafnréttishúss fjallaði um innflytjendur á Íslandi sérstaklega með tilliti til stöðu erlendra kvenna á vinnumarkaði. Amal telur að innflytjendur séu oft jaðarsettir og því sé ekki verið að nýta mikilvægan mannauð við stefnumótun og ákvarðanatöku í okkar samfélagi. Hún bendir á að konur af erlendum uppruna séu ekki einsleitur hópur en þær eigi það þó sameiginlegt að þurfa að berjast fyrir ákveðnum réttindum eins og launajöfnuði þar sem þær fá ekki sömu laun og íslenskar konur fyrir sömu eða sambærileg störf. Eins telur Amal að þau námskeið sem eiga að búa atvinnulausa undir virkni á vinnumarkaði mismuni fólki af erlendum uppruna. Hagnýt námskeið af ýmsu tagi séu einungis í boði fyrir Íslendinga á meðan fólk af erlendum upprúna bjóðist aðeins námskeið í íslensku, sama hve mikla íslensku það kann. Amal minnti þátttakendur á landsfundi jafnréttisnefnda á að horfa til fólks af erlendum uppruna við stefnumótun og bjóða þeim upp á samráð í tengslum við ýmis samfélagsmál. Fólk af erlendum uppruna hafi áhuga á fleiru en því sem snertir þá sjálfa.
Þór Steinarsson, stjórnsýslufræðingur hjá Reykjavíkurborg kynnti innleiðingu kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlanagerðar í Reykjavíkurborg en starfsfólk af ýmsum sviðum borgarinnar hefur undanfarin 2 ár innleitt verklag við kynjaða fjárhags- og starfsáætlanavinnu. Þetta nýja verklag borgarinnar hefur leitt til markvissrar fræðslu um kynjaða hagstjórn og 16 tilraunaverkefna á öllum fagsviðum og skrifstofum borgarinnar. Tilraunaverkefnunum er nú lokið og verður lokaskýrsla um verkefnin kynnt í haust. Þór telur að forsenda þeirrar góðu vinnu sem hefur átt sér stað hjá borginni liggi í pólitískum áhuga og stuðningi við verkefnið, en á næstu árum mun borgin vinna frekar að innleiðingu, þróun þekkingar og aðferðafræði auk þess sem gerð aðgerðaáætlunar er nauðsynleg verkfæri til að vinna að fleiri hagnýtum verkefnum.
Glærur: Kynjuð fjárhags- og starfsáætlunargerð hjá Reykjavíkurborg
Halldóra Gunnarsdóttir, sérfræðingur á mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar fjallaði um aðgerðaáætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum og sagði frá ákveðnum verkefnum eins og jafnréttisfræðslu fyrir starfsfólk í skólum og frístundastarfi á vegum borgarinnar, rannsókn og niðurstöður verkefnis um klám og kynferðislega áreitni á vinnustöðum borgarinnar o.fl. Reykjavíkurborg á nú góðan verkefnabanka í jafnréttismálum en mannréttindaskrifstofan hefur nýtt sér styrki frá Nýsköpunarsjóði í ýmis verkefni og starfsfólk hefur leitað eftir samstarfi við Jafnréttisstofu, háskóla Íslands og nemendur í kynjafræði hafa gjarnan verið ráðnir í tímabundin verkefni hjá borginni. Halldóra hvatti fulltrúa sveitarfélaga til að eiga samstarf sín á milli í jafnréttismálum og sækja sér þekkingu til hennar og starfsfólks mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar.
Glærur: Aðgerðaráætlun Reykjavíkurborgar í jafnréttismálum
Almar M. Halldórsson, sérfræðingur hjá Námsmatsstofnun kynnti niðurstöður PISA rannsóknarinnar hvað varðar lestur og lesskilning. Almar bar saman árangur stúlkna og drengja en íslenskar stúlkur eru að koma mun betur út en strákar í rannsókninni og standa einnig betur að vígi en stúlkur í þeim löndum sem tóku þátt í PISA rannsókninni. Almar telur að sá mikli munur sem er á milli kynjanna skýrist af gengi þeirra á grunnskólastiginu þar sem drengir sem sýna náminu lítinn áhuga komist upp með að leggja sig minna fram en nauðsyn beri til. Almar talaði í þessu sambandi um kerfislæga eftirgjöf með nemendum sem leggja sig ekki fram.
Glærur: Kynjamunur á læsi íslenskra nemenda við lok grunnskóla
Ályktanir landsfundar jafnréttisnefnda:
Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga, haldinn á Akranesi 14. september 2012, hvetur sveitarfélögin til að taka upp kynjaða fjárhags- og starfsáætlanagerð.
Kynjuð fjárhags- og starfsáætlanagerð byggir á tölfræðilegri greiningu á skiptingu fjármagns á milli kvenna og karla sem ætti að leiða til meðvitaðri ákvarðanatöku og hnitmiðaðri nýtingar útsvars í þágu beggja kynja.
Landsfundurinn hvetur sveitarfélögin til að hafa jafnrétti að leiðarljósi við alla ákvarðanatöku, hvert skref skiptir máli.
Landsfundurinn fagnar því að jafnrétti sé ein af sex grunnstoðum menntunar í nýjum aðalnámsskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla.
Landsfundurinn bendir sérstaklega á mikilvægi jafnréttis í skólastarfi sveitarfélaga. Þar er brýnt að horft sé til þess að skólakerfið sé öflugt verkfæri til að stuðla að jöfnum tækifærum beggja kynja til náms og skólastarfið mæti þörfum og áhugamálum beggja kynja jafnt. Í því samhengi er mikilvægt að sveitarfélög leggi áherslu á jafnréttismál, vinni markvisst að aðgerðum í þágu jafnréttis í skólastarfi og jafnréttisáætlunum í samræmi við lög. Þar er sérstaklega nauðsynlegt að beina sjónum að stöðu símenntunar og fræðslu um jafnréttismál fyrir starfsfólk skólakerfisins, foreldra og sveitarstjórnarmenn. Þá bendir landsfundurinn á nauðsyn þess að kynjafræði sé hluti af kennaramenntun og að kennarar fái nægan undirbúning og menntun á sviði jafnréttismála til að sinna starfi sínu í samræmi við aðalnámskrá og jafnréttislög.
Landsfundurinn hvetur sveitarfélögin til að vernda hagsmuni þegnanna út frá sjónarmiði jöfnunar og án mismunar. Fundurinn hvetur ríkisvaldið til að gera sveitarfélögunum þetta kleift. Mikilvægt er að samfélagsfræðsla til innflytjenda sé öflug sem og íslenskukennsla. Áhyggjuefni er að brottfall nemenda af erlendum uppruna úr framhaldsskólum er mun meira en íslenskra nemenda. Ríkisvaldið þarf að mæta þörfum þessa hóps betur en nú er gert.
Landsfundurinn hvetur fyrirtæki til að gæta jafnræðis og greiða innflytjendum sömu laun og Íslendingum fyrir sömu vinnu.
Fundurinn hvetur til þess að erlendar konur séu virtar til jafns við innlendar og fordæmir kynferðislega áreitni sem er ofbeldi sem aldrei má líðast nokkurs staðar.