- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Landsfundur jafnréttisnefnda sveitarfélaga var haldinn í Reykjavík 18. og 19. september sl. Fyrri daginn var ráðstefna sem var opin öllum en seinni dagurinn var einungis fyrir kjörna fulltrúa og starfsfólk sem vinnur að jafnréttismálum. Fundurinn var undirbúinn af mannréttindaskrifstofu Reykjavíkurborgar og Jafnréttisstofu.
Landsfundum er ætlað að vera vettvangur til að fræðast, efla tengsl og stofna til samstarfs um verkefni sá sviði jafnréttismála. Jafnréttisnefndir sveitarfélaga eða þær nefndir sem fara með hlutverk þeirra skulu, skv. lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 10/2008, leggja fram jafnréttisáætlun til fjögurra ára. Landsfundurinn var góður undirbúningur fyrir þá vinnu.Líf Magneudóttir, formaður mannréttindaráðs setti landsfundinn og erindi hennar má lesa hér.
Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra ávarpaði gesti og fjallaði um skyldur og ábyrgð sveitarfélaga í jafnréttismálum. Hún benti á mikilvægi þess að sveitarfélög skapi þann sveigjanleika sem þarf til að starfsfólk og aðrir íbúar sveitarfélaganna geti sem best samræmt fjölskyldu- og atvinnulíf. Eygló ræddi sérstaklega um innleiðingu tilskipana um bann við mismunun sem rætt verður á Alþingi í haust en hún taldi nauðsynlegt að fá stuðning sveitarfélaga við frumvarpið en það veitir aukna réttarvernd á vinnumarkaði.
Anna Kristinsdóttir, mannréttindastjóri Reykjavíkurborgar flutti erindi um mikilvægi þess að leggja áherslu á jafnrétti í víðum skilningi en Reykjavíkurborg var fyrst sveitarfélaga með bæði jafnréttis- og fjölmenningarstefnu. Reykjavíkurborg hefur undanfarin ár sett fram mannréttindastefnu þar sem jafnrétti allra er í forgrunni. Stefnan hefur hlotið góð viðbrögð en forsenda þess að hún sé virk er pólitískur vilji. Verkefni í mannréttindastefnu borgarinnar eru mjög fjölbreytt en stefnuna má lesa hér.
Glærur Önnu
Í framhaldi af erindi Önnu fór fram vinnustofa sem Auður Magndís Auðardóttir, verkefnastjóri jafnréttis á skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar og Embla Guðrúnar Ágústsdóttir, verkefnisstýra hjá Tabú stýrðu. Í vinnustofunni var rætt um forréttindi ýmissa þjóðfélagshópa og hvernig þau geta birst í ólíkum aðstæðum.
Glærur Auðar og Emblu Forréttindalisti sem unnið var með í vinnuhópum
Helgi Gunnlaugsson, prófessor hélt erindi um ósýnileika kvenna í afbrotum og velti upp hugmyndum fræðimanna og annarra um ástæður þess að konur eru að fremja mjög fá afbrot í samanburði við karla. Konur fremja að jafnaði ekki nema um 10 - 30% af öllum afbrotum þegar skoðaðar eru opinberar afbrotaskýrslur. Hlutfallið er breytilegt eftir brotaflokkum. Mikill munur á tegundum afbrota milli kynjanna. Glæpsamlegt athæfi kvenna tengist yfirleitt minni háttar auðgunarbrotum eins og hnupli og þjófnaði, skjalafalsi eða brotum án þolenda eins og vændi og fíkniefnaneyslu. Karlar eru hins vegar ráðandi í alvarlegum ofbeldisglæpum, meiri háttar auðgunarbrotum, og ekki síst í viðskipta- og pólitískum glæpum. Um 90% manndrápa á Íslandi framin af körlum. Helgi greindi frá niðurstöðum rannsókna á viðhorfum kvenna og karla til afbrota og öryggis þeirra í mismunandi hverfum borgarinnar.
Glærur Helga
Anna Gyða Sigurgísladóttir og Berglind Sunna Stefánsdóttir, tvær af upphafskonum verkefnisins Reconesse Database spurðu hvernig hægt væri að breyta gangi sögunnar en verkefnið byggir á því að rétta hlut kvenna í sögubókum sem og miðlum nútímans. Í vinnusmiðjunni var fjallað um áhrifamátt frásagna í baráttunni fyrir auknu jafnrétti í heiminum og ræddu vinnuhópar um viðfangsefnið.
Frekari upplýsingar um verkefnið er að finna á eftirfarandi slóðum:
http://reconesse.org/
https://www.facebook.com/reconesse
https://twitter.com/Reconesse
Dagskrá föstudagsins 19. september var einungis ætluð fulltrúum sveitarfélaga og voru fulltrúar 14 sveitarfélaga þátttakendur á fundinum.
Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastýra Jafnréttisstofu flutti erindi um skyldur sveitarfélaga og möguleg verkefni til að stuðla að auknu kynja jafnrétti. Hún kynnti hlutverk Jafnréttisstofu og þá fræðslu sem Jafnréttisstofa býður sveitarfélögum upp á. Kristín ræddi einnig almennt um stöðu jafnréttismála á Íslandi og mögulega útvíkkun á starfsemi Jafnréttisstofu á komandi árum en nú stendur til að innleiða tilskipanir um bann við mismunun á vinnumarkaði sem felur í sér aukna réttarvernd fyrir minnihlutahópa á Íslandi. Kristín ræddi einnig um norrænar ráðstefnur sem eru framundan í haust og ítrekaði að fulltrúar sveitarfélaga geta nálgast upplýsingar um jafnréttismál á heimasíður Jafnréttisstofu: www.jafnretti.is
Glærur Kristínar
Anna G. Björnsdóttir, sviðsstjóri þróunar- og alþjóðasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga kynnti evrópskan jafnréttissáttmála sveitarfélaga sem 6 íslensk sveitarfélög hafa undirritað (Akranes, Akureyri, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær og Reykjavíkurborg) . Sáttmálinn er gott tæki sem gagnast sveitarfélögum til að koma á jafnrétti á hinum ýmsu sviðum og hvatti Anna Guðrún sveitarfélög til að skoða þennan sáttmála vel. Þau íslensku sveitarfélög sem hafa undirritað sáttmálann hafa sett aðgerðir úr honum inn í sínar hefðbundnu jafnréttis- og aðgerðaáætlanir.
Glærur Önnu Guðrúnar
Halldóra Gunnarsdóttir, sérfræðingur í jafnréttismálum hjá Reykjavíkurborg flutti erindi um helstu verkefni borgarinnar undanfarin ár. Reykjavíkurborg hefur verið í fararbroddi sveitarfélaga hvað varðar fjölbreytt jafnréttisverkefni og fræðslu til starfsfólks. Á undanförnum árum hefur borgin innleitt kynjaða hagstjórn og fjárhagsáætlunargerð, stofnað jafnréttisskóla sem á að veita kennurum í öllum skólum borgarinnar fræðslu um hvernig best sé að innleiða jafnréttiskennslu í skólastarfið og mikil fræðsla hefur farið fram á frístunda- og tómstundasviði borgarinnar. Halldóra hvatti önnur sveitarfélög til að nýta þér þá þekkingu sem borgin hefur í jafnréttismálum og vildi fá sveitarfélög til samstarfs um ný verkefni. Borgin er nú þegar í samstarfi við sveitarfélög á Suðurnesjum vegna innleiðingar verklags þegar kemur að ofbeldismálum.
Glærur Halldóru
Herdís Sólborg Haraldsdóttir, verkefnisstýra kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá borginni kynnti verklag við innleiðingar kynjaðrar fjárhags- og starfsáætlunar hjá borginni undanfarin ár. Innleiðingin hefur gengið vel að mestu leyti og hefur Herdís Sólborg veitt fræðslu, ráðgjöf og stýrt samstarfi í þessum málaflokki. Herdís Sólborg er reiðubúin til að kynna innleiðinguna og verkþætti sem geta nýst öðrum sveitarfélögum við innleiðingu kynjaðrar hagstjórnar og bauð fulltrúum sveitarfélaga upp á fræðsluerindi og ráðleggingar .
Glærur Herdísar