Landsfundur sveitarfélaganna heppnaðist vel

Fyrir viku síðan fór landsfundur um jafnréttismál sveitarfélaga fram og var hann rafrænn að þessu sinni. Níutíu og tveir einstaklingar sóttu fundinn og var mæting því mjög góð. Dagskráin var fjölbreytt og höfðaði til breiðs hóps.

Farið var yfir ný jafnréttislög sem tóku gildi árið 2020 og var þar stiklað á stóru varðandi helstu breytingar og fjallað sérstaklega um þær kröfur sem gerðar eru til áætlana sveitarfélaga um jafnréttismál. Stefnt er að því að halda vinnustofu og fræðslu á næsta landsfundi um gerð þessara nýju áætlana sveitarfélaganna.

Fjallað var um menntun og skólastarf og hvaða eftirfylgni er til staðar hjá skólum og
Menntamálaráðuneytinu er varðar jafnréttismál í skólastarfi. Skylda skóla hefur verið mjög skýr frá upphafi. Breytingar verða á innköllun Jafnréttisstofu varðandi jafnréttisáætlanir skólanna sem verða nú inn í áætlunum sveitarfélaganna. Skólastjórnendur bera samt sem áður enn ábyrgð á að fylgja jafnréttisáætlunum eftir í skólunum. Jafnréttisráðgjafi Menntamálaráðuneytisins veitir skólum ráðgjöf er varðar jafnréttismál í skólum.

Sagt var frá þingsályktun um forvarnir meðal barna og ungmenna gegn kynferðislegu og kynbundnu ofbeldi og áreitni 2021-2025. Verkefnið var kynnt og farið var sérstaklega yfir mikilvægt hlutverk sveitarfélaganna. Samþætta á forvarnir í kennslu og skólastarfi á öllum skólastigum og einnig í tómstunda- og íþróttastarfi. Forvarnarteymi skulu vera starfandi í öllum grunnskólum.

Kynning á nýrri Jafnlaunastofu Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar og hlutverki hennar gagnvart sveitarfélögum. Aukin áhersla hefur verið á jafnlaunamál meðal annars vegna jafnlaunavottunar. Það hefur verið meiri þörf fyrir fræðslu, ráðgjöf og stuðning við að framfylgja jafnlaunaákvæðum laga. Einnig er mikilvægt að starfsmatskerfi þjóni markmiðum jafnréttislaga og stuðli að launajafnrétti.

Síðast en ekki síst var farið yfir frumniðurstöður úr verkefni sem unnið er samkvæmt Byggðaáætlun og fjallar um atvinnuþátttöku og tekjumun eftir búsetu. Auðvelt er að týna sér í samburði inn á tekjusaga.is og geta allir skoðað launamun þar með ýmsum breytum og hvetjum við fólk til þess. Í erindinu var fjallað um launamun á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðisins. Einnig var fjallað um heildartekjur og möguleika karla og kvenna til að afla tekna ásamt því að fjalla um menntun og hvort hún skili í raun auknum tekjum og þá fyrir hverja. Ásamt umfjöllun um störf án staðsetningar og hvaða störf það eru helst sem eru auglýst þannig og hverjir það eru sem vinna þau störf.