Látum verkin tala – burt með launamisrétti kynjanna!

Jafnréttisstofa býður til opins hádegisfundar á kvennafrídaginn 24. október þar sem erindi og umræður um kynbundið launamisrétti munu fara fram. Fundurinn verður haldinn á Hótel Kea og hefst hann kl. 12. 

Helga Jónsdóttir, framkvæmdastjóri BSRB og Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri munu flytja erindi og mun Stefán B. Sigurðsson, rektor Háskólans á Akureyri sjá um fundarstjórn.
Á Íslandi mælist launamunur kynjanna 7-18% eftir því hvaða hópar eru mældir og eru vísbendingar um að launamunurinn sé mun meiri á landsbyggðinni. Niðurstöður úr nýrri launakönnun BSRB sýnir að á meðal fólks í 100% starfi eru konur að jafnaði með 26% lægri uppreiknuð heildarlaun en karlar. Þegar tekið hafði verið tillit til aldurs, vinnutíma, starfsaldurs, starfstéttar, menntunar, atvinnugreinar og vakaálags kom í ljós að munur á heildarlaunum karla og kvenna var 13,1%.

Kynbundni launamunurinn mældist nokkuð misjafn á milli landshluta. Mestur var hann á Vesturlandi, Vestfjörðum og Suðurlandi eða á bilinu 18,6% til 18,8%. Minnstur var launamunurinn á Austurlandi, 10%. Könnun BSRB sýnir líka að konur fá síður hlunnindi og aukagreiðslur en karlar. Þessar aukagreiðslur hafa verið að aukast aftur núna allra síðustu misserin eftir að hafa verið skornar verulega niður eftir efnahagshrunið. Þessar greiðslur virðast í ríkari mæli rata í launaumslög karla en kvenna sem kann að hluta að útskýra hvers vegna kynbundni launamunurinn er aftur að aukast.

Könnun BSRB sýnir einnig  að konur eru ósáttari við laun sín en karlar og álag hefur frekar aukist hjá konum en körlum samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar.

Launamunur kynjanna hefur mælst svipaður í fjölda ára en í ár eru 51 ár frá gildistöku fyrstu laga um launajöfnuð kvenna og karla og því óásættanlegt að ekki hafi þokast lengra í að eyða launamisrétti kynjanna. Íslenskur vinnumarkaður er mjög kynskiptur en það hefur tvímælalaust  viðhaldið  launamisrétti kynjanna þar sem viðurkennt er að hefðbundin kvennastörf eru minna metin en hefðbundin karlastörf. 

Þörf er á viðhorfsbreytingu, samvinnu  og aðgerðum stjórnvalda og stéttarfélaga til að vinna bug á kynbundna launamisréttinu en í nýrri framkvæmdaáætlun ríkistjórnarinnar gegn launamisrétti kynjanna eru settar fram margháttaðar aðgerðir en megininntakið er samvinna aðila vinnumarkaðarins og samstaða um að taka á málum. Meðal aðgerða er að fylgja eftir nýjum jafnlaunastaðli sem vonandi mun leiða fram jákvæðar breytingar. Ýmsar aðgerðir eru nauðsynlegar til að vinna bug á launamisréttinu, það er t.d. mjög aðkallandi að fyrirtæki og stofnanir fari í sjálfskoðun, geri reglulegar mælingar á launagreiðslum og leiðrétti launamismunun. Launamunurinn hefur tilhneigingu til að aukast ef ekki er fylgst vel með. Opinberir aðilar verða einnig að vera til fyrirmyndar en þeim ber ekki síst að endurmeta hin mikilvægu umönnunarstörf sem m.a. gera fólki kleift að stunda vinnu utan heimilis. Einnig þarf að fara fram alvarleg umræða um styttingu vinnuvikunnar sem stuðlar að fjölskylduvænni vinnumarkaði og kjarabót fyrir fjölskyldurnar í landinu.