- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) gerði úttekt á launakjörum starfsfólks Akureyrarbæjar árið 2012 og var rannsókninni sérstaklega ætlað að varpa ljósi á hugsanlegan kynbundinn launamun meðal starfsmanna bæjarins.Launakjör 1589 starfsmanna voru greind og eru konur þar í meirihluta eða 77,5% en starfandi karlar eru 22,5%. Konur eru í ríkara mæli en karlar í skertu starfshlutfalli hjá Akureyrarbæ , 58,5% kvenna eru í skertu starfshlutfalli og 27,5% karla.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru að óútskýrður launamunur karla og kvenna var 3,9% í heildarlaunum starfsfólks í fullu starfi þegar búið var að taka tillit til menntunar, starfs, deildar, aldurs, starfaldurs og vinnutíma. Óútskýrður launamunur karla og kvenna var 1,5% í dagvinnulaunum starfsfólks uppreiknuð miðað við fulla stöðu þegar búið var að taka tillit til menntunarálags, starfs, deildar, aldurs, starfaldurs og vinnutíma, körlum í vil.
Í úttekt sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði árið 1998 á launum starfsfólks Akureyrarbæjar kom í ljós að þegar búið var að taka tillit til menntunar, starfs, deildar, aldurs, starfaldurs og vinnutíma voru heildarlaun kvenna 8% lægri en heildarlaun karla. Þessi munur var kominn niður í 2-3% árið 2007 en hefur nú hækkað lítillega aftur og er 3,9% í þessari nýju rannsókn RHA.
Hvað dagvinnulaunin varðar þá kom í ljós í úttektinni árið 2007 að þegar búið var að taka tillit til áhrifaþátta voru dagvinnulaun kvenna 1,0% hærri en dagvinnulaun karla. Nú hefur þetta snúist við og hafa konur nú 1,5% lægri dagvinnulaun en karlar að teknu tilliti til áhrifaþátta.
Bæjarráð, samfélags- og mannréttindaráð og kjarasamninganefnd Akureyrarbæjar hafa ákveðið að stofna vinnuhóp sem hefur það hlutverk að greina ástæður þess að munur mælist á launum kynjanna og gera tillögur að úrbótum.