Lög um bann við allri mismunun hafa tekið gildi

Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði og jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna tóku gildi 1. september sl.

Með lögum um jafna meðferð á vinnumarkaði er skýrt kveðið á um bann við allri mismunun fólks á vinnumarkaði, hvort heldur beina eða óbeina, á grundvelli kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynhneigðar, kynvitundar, kyneinkenna eða kyntjáningar. Þetta þykir mikilvægt til að stuðla að virkri þátttöku sem flestra á vinnumarkaði en atvinnuþátttaka er talin ein þýðingarmesta leiðin til að koma í veg fyrir félagslega einangrun og fátækt. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af tilskipun Evrópuráðsins 2000/78/EB um almennar reglur um jafna meðferð á vinnumarkaði og í atvinnulífinu.

Með lögum um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti og þjóðernisuppruna er kveðið á um meginregluna um jafna meðferð einstaklinga á öllum sviðum samfélagsins, utan vinnumarkaðar. Við lagasetninguna var höfð hliðsjón af efni tilskipunar 2000/43/EB um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna.

Með skýru banni við mismunun er horft til þess að stuðla að virkri þátttöku sem flestra í íslensku samfélagi óháð kynþætti og þjóðernisuppruna og koma í veg fyrir félagslega einangrun einstaklinga af sömu ástæðum. Markmiðið er einnig að sporna við því að skoðanir á mismunandi verðleikum kynþátta festi hér rætur.

Jafnréttisstofa mun annast framkvæmd laga þessara og skal 4. gr. laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla gilda eftir því sem við getur átt.

Þannig munu störf Jafnréttisstofu ekki eingöngu lúta að stjórnsýslu í tengslum við jafnrétti kynjanna á grundvelli laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla heldur einnig að jafnri meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna utan vinnumarkaðar annars vegar og jafnri meðferð á vinnumarkaði óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun, skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð kynvitund, kyneinkennum eða kyntjáningu hins vegar.


Lög um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna
Lög um jafna meðferð á vinnumarkaði