- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Alþingi samþykkti í dag lög sem gera meðal annars ráð fyrir því, að í stjórnum opinberra hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en þrjá stjórnarmenn skuli hlutfall hvors kyns í stjórninni vera að minnsta kosti 40% í lok árs 2013.
Samkvæmt frumvarpinu verður fyrirtækjum skylt að gæta að kynjahlutföllum í stjórnum hlutafélaga. Skylt verði að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynja í stjórnum hlutafélaga í tilkynningum um stjórnir til hlutafélagaskrár. Í hlutafélögum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn að jafnaði á ársgrundvelli verður jafnframt skylt að sundurliða upplýsingar um hlutföll kynjanna meðal starfsmanna og stjórnenda félagsins.
Þá verður skylt að gæta að kynjahlutföllum við ráðningu framkvæmdastjóra og verður fyrirtækjum gert skylt að gefa hlutafélagaskrá upplýsingar í tilkynningum til skrárinnar um hlutföll kynjanna meðal framkvæmdastjóra.
Í frumvarpinu eru einnig ákvæði um að skylda stjórn hlutafélags til að sjá til þess að hlutaskrá geymi á hverjum tíma réttar upplýsingar um hluthafa, hlutafjáreign þeirra og atkvæðisrétt. Þá skal stjórn félags leggja fyrir aðalfund samantekt um hlutafjáreign einstakra hluthafa, rétt þeirra til að greiða atkvæði og um breytingar sem orðið hafa á árinu. Er tilgangurinn að auka gagnsæi hvað varðar eignarhald og atkvæðisrétt í íslenskum hlutafélögum og koma þannig til móts við gagnrýni um ógagnsæi í viðskiptalífi hérlendis.
Frumvarpið var samþykkt með atkvæðum 32 þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki. Ellefu greiddu ekki atkvæði.
Breyting á lögum um hlutafélög, nr. 2/1995, með síðari breytingum.