- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
María Rut Kristinsdóttir sérfræðingur í innanríkisráðuneytinu var með áhugavert erindi í hádeginu í dag í boði Jafnréttisstofu. Tilefnið var 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Í erindi sínu kynnti María Rut fyrstu tillögur samráðshóps um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins. Fjölmennt lið lögreglu sótti fyrirlesturinn ásamt öðru fagfólki. Góðar og gagnlegar umræður sköpuðust og sagði María Rut umræðurnar gott veganesti inn í frekari vinnu samráðshópsins.
Samráðshópnum, sem skipaður var í mars á þessu ári, er ætlað að kortleggja stöðu mála og leggja fram aðgerðaáætlun sem miðar meðal annars að því að tryggja réttaröryggi, vandaða málsmeðferð og auka traust á réttarvörslukerfinu.
Í skýrslu samráðshópsins er að finna tölfræði frá lögreglu yfir fjölda kynferðisbrota, framvindu kærumála, hvers eðlis brot voru og um málsmeðferðarhraða á árunum 2011-2015. Þá eru settar fram tillögur um aðgerðir á sex sviðum og þær flokkaðar í eftirfarandi kafla: a) Rannsóknir. b) Ákæruvald. c) Dómstólar. d) Brotaþolar. e) Sakborningar og f) Forvarnir og fræðsla
Tillögur eru annars vegar um aðgerðir sem geta komið strax til framkvæmda og hins vegar aðgerðir sem kæmu til framkvæmda allt til ársins 2020. Lögð var áhersla á virkt samráð hópsins við aðila innan réttarvörslukerfisins, fræðasamfélagsins, grasrótar og annarra sem kynnu að hafa skoðun á meðferð kynferðisbrota. Því samráði er ekki lokið og því mikilvægt að kynna fyrstu tillögur hópsins fyrir þeim sem hagsmuna hafa að gæta og fá umræðu og ábendingar um hvað betur má fara.
Í samráðshópnum sitja:
María Rut Kristinsdóttir, sérfræðingur og jafnframt formaður, tilnefnd af innanríkisráðherra,
Árni Þór Sigmundsson, yfirmaður kynferðisbrotadeildarinnar, tilnefndur af embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
Brynjólfur Eyvindsson, héraðsdómslögmaður, tilnefndur af Lögmannafélagi Íslands,
Daði Kristjánsson, saksóknari, tilnefndur af Ríkissaksóknara,
Eyrún B. Jónsdóttir, verkefnisstjóri Neyðarmóttöku Landspítala háskólasjúkrahúss, tilnefnd af Neyðarmóttökunni,
Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, tilnefnd af embætti héraðssaksóknara,
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri, tilnefnd af embætti Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu,
Sigríður Hjaltested, héraðsdómari tilnefnd af dómstólaráði.