Meinlaust er 2 ára í dag

Í dag 30. september 2024 er vitundarvakningin Meinlaust 2 ára. Fyrir tveimur árum vissum við ekki að hún fengi nýtt líf fjórum sinnum og héldi áfram að stækka. Fyrstu herferðinni var ætlað að vekja athygli á birtingarmyndum kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni í samfélaginu og opna augu fólks fyrir sambandi á milli slíkrar hegðunar og hugmynda um karlmennsku, mörk og samþykki.

Herferðin var byggð á raunverulegum sögum úr íslensku samfélagi, hegðun sem mörg telja saklausa og var ætlunin að draga fram samfélagsmynstur sem er alls ekki eins meinlaust og halda mætti.

Í framhaldinu var farið í samstarf við Samtökin 78, Þroskahjálp og Hennar rödd og sönnum sögum safnað saman um öráreitni sem hinsegin fólk, fatlað fólk og fólk af erlendum uppruna verður fyrir.

Öráreitni er hugtak sem notað er yfir hversdagslegar athafnir, athugasemdir eða umhverfisþætti sem eru niðrandi eða niðurlægjandi fyrir fólk sem tilheyrir jaðarsettum hópum. Hver athöfn, umhverfisþáttur eða athugasemd er ef til vill ekki stórvægileg ein og sér en þegar jaðarsett fólk finnur fyrir slíku reglulega, jafnvel daglega, eykur það álagið sem það verður fyrir samfélagsstöðu sinnar vegna og gerir það jaðarstöðuna áþreifanlega.

Það er gaman að segja frá því á tveggja ára afmælinu að Meinlaust heldur áfram að stækka og næsta herferð fer innan skamms í loftið og nú í samstarfi við Barnaheill.