- Samfélag og einstaklingar
- Vinnumarkaður
- Þjónustugátt
Hvarvetna í heiminum er nú mikil vakning um hverskonar kynbundið ofbeldi og áreitni undir millumerkinu #metoo. Vakningunni er ætlað að draga ofbeldið fram í dagsljósið og breyta menningu samfélaga á þann hátt að kynbundið ofbeldi og áreitni verði ekki lengur liðin.
Ísland hefur ekki farið varhluta af #metoo vakningunni. Upphafið má rekja til þess að þann 21. nóvember sl. sendu 419 stjórnmálakonur frá sér yfirlýsingu þar sem þær segja frá því að kynbundið ofbeldi og áreitni eigi sér stað í heimi stjórnmálanna. Í kjölfarið birtust 136 frásagnir af ofbeldi og mismunun sem konurnar hafa þurft að þola. Þess er krafist að karlar axli ábyrgð og málið verði tekið upp innan stjórnmálaflokkanna.
Síðustu þrjár vikur hafa ellefu hópar til viðbótar stigið fram með svipaðar sögur. 4.609 konur hafa skrifað undir yfirlýsingar þar sem kynbundnu ofbeldi og áreitni er mótmælt og 616 frásagnir af slíku ofbeldi hafa birst. Fleiri hópar eru að undirbúa samskonar aðgerðir.
Margir vinnustaðir og félagasamtök hafa sent frá sér yfirlýsingar þar sem harmað er að slíkt ofbeldi hafi fengið að viðgangast og margir hafa gripið til aðgerða. Samkvæmt jafnréttislögum eiga allir að hafa jafna möguleika til að njóta eigin atorku og þroska hæfileika sína óháð kyni. Það gerist ekki nema kynbundið ofbeldi, kynbundin og kynferðisleg áreitni verði upprætt.
Jafnréttisstofa bendir á að í 22. gr. jafnréttislaga er fjallað um kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Þar segir:
Atvinnurekendur og yfirmenn stofnana og félagasamtaka skulu gera sérstakar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að starfsfólk, nemar og skjólstæðingar verði fyrir kynbundnu ofbeldi, kynbundinni áreitni eða kynferðislegri áreitni á vinnustað, stofnun, í félagsstarfi eða skólum.
Ef yfirmaður er kærður vegna ætlaðs kynbundins ofbeldis, ætlaðrar kynbundinnar áreitni eða ætlaðrar kynferðislegrar áreitni verður hann vanhæfur til að taka ákvarðanir í tengslum við starfsskilyrði kæranda á meðan meðferð málsins stendur yfir og skal þá næsti yfirmaður taka slíkar ákvarðanir.
Í 18. gr. sömu laga er fyrirtækjum og stofnunum, þar sem starfa fleiri en 25 starfsmenn, gert skylt að setja sér jafnréttisáætlun eða samþætta jafnréttissjónarmið í starfsmannastefnu sína. Með jafnréttisáætluninni skal fylgja aðgerðaáætlun þar sem skilgreint er hvernig starfsmönnum eru tryggð þau réttindi sem kveðið er á um í 19.–22. gr. Þetta þýðir að allir stærri vinnustaðir eiga að vera með aðgerðaáætlun þar sem fram kemur hvernig koma á í veg fyrir kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni. Jafnréttisstofa hvetur starfsfólk og nemendur til að kynna sér hvort slík áætlun sé til á þeirra vinnustað eða skóla.
Hér fyrir neðan má finna ýmsar gagnlegar upplýsingar er snerta einelti, kynbundið ofbeldi, kynbundna áreitni og kynferðislega áreitni.
Slóð á lög nr. 10/2008 um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla:
http://www.althingi.is/lagas/nuna/2008010.html
Slóð á reglugerð um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.
http://www.vinnueftirlit.is/media/sem-heyra-undir-vinnuvernd/B_nr_1009_2015.pdf
Slóð á bæklinginn Aðgerðaráætlun gegn einelti og kynbundnu ofbeldi sem Starfsgreinasambandið gaf út:
http://www.sgs.is/wp-content/uploads/2017/09/Adgerdaa%C3%A6tlun-SGS.pdf
Slóðir á gagnlegar upplýsingar frá Vinnueftirlitinu
http://www.vinnueftirlit.is/vinnuvernd/adbunadur/einelti-areitni-ofbeldi/
Hvert er hægt að leita?:
Jafnréttisstofa hefur eftirlit með framkvæmd jafnréttislaga og sér um fræðslu og ráðgjöf í tengslum við jafnrétti kynjanna. Senda má póst á netfangið jafnretti[at]jafnretti.is eða hringja í sími 460-6200.
Vinnueftirlitið fylgir því eftir að starfsumhverfi sé öruggt, heilsusamlegt og í samræmi við vinnuverndarlög. Senda má póst á netfangið vinnueftirlit[at]ver.is eða hringja í sími 550-4600.
Stéttarfélögin semja um laun og önnur starfskjör í kjarasamningum fyrir hönd félagsmanna sinna og gæta hagsmuna þeirra á vinnumarkaði. Heildarsamtök launafólks eru Alþýðusamband Íslands http://www.asi.is/ , Bandalag stéttarfélaga starfsmanna í almannaþjónustu www.bsrb.is , Bandalag háskólamanna www.bhm.is og Kennarasamband Íslands www.ki.is
Stígamót eru grasrótarsamtök sem berjast gegn kynferðisofbeldi og veita aðstoð fyrir fólk sem hefur verið beitt kynferðisofbeldi. Senda má póst á netfangið stigamot[at]stigamot.is eða hringja í síma 562 6868 / 800 6868.
Aflið samtök gegn kynferðis- og heimilisofbeldi á Norðurlandi. Senda má póst á aflid[at]aflid.is eða hringja í síma 857-5959 / 461-5959.