#metoo – áfram gegn ofbeldi

#metoo byltingin heldur áfram og fleiri konur stíga fram. Frásagnir 776 kvenna af kynferðislegu ofbeldi hafa birst og vel yfir fimmþúsund konur hafa skrifað undir yfirlýsingar þar sem breytinga er krafist.

Fjölmiðlar hafa tekið virkan þátt og varla líður sá dagur að ekki séu sagðar fréttir af #metoo byltingunni. Fyrirtæki og stofnanir senda frá sér yfirlýsingar um að vinna sé hafin gegn þeirri kynbundnu ofbeldismenningu sem viðgengist hefur í samfélaginu.

Hér á eftir er yfirlit yfir helstu aðgerðir, viðburði og fræðslu sem tengjast #metoo á Íslandi.

Aðgerðir hins opinbera

Félags- og jafnréttismálaráðherra hefur skipað tvo starfshópa tengda #metoo. Annars vegar aðgerðahóp gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum. Og hins vegar nefnd sem meta á umfang kynferðislegrar áreitni, kynbundinnar áreitni, ofbeldis og eineltis. Jafnréttisstofa á fulltrúa í báðum hópunum.

Forsætisráðherra hefur skipað stýrihóp sem vinna á að úrbótum gegn kynferðislegu ofbeldi innan stjórnkerfisins. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2018/01/19/Skipun-styrihops-um-heildstaedar-urbaetur-ad-thvi-er-vardar-kynferdislegt-ofbeldi/

Menntamálaráðherra hefur skipað starfshóp sem útfæra á forvarnir gegn kynferðislegu ofbeldi, áreitni og einelti innan íþrótta- og æskulýðshreyfingarinnar. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2018/01/12/Einhuga-um-ad-vinna-saman-gegn-kynbundnu-ofbeldi-og-areitni/

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur skilyrt fjárveitingar til íþróttafélaga og annarra sem bjóða upp á tómstundir fyrir börn og unglinga. Félögin skulu vera með siðareglur, viðbragðsáætlanir og fræðslu um ofbeldi, kynferðislega áreitni og kynferðisofbeldi. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga hefur hvatt sveitarfélög í landinu til að fylgja fordæmi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar http://www.ruv.is/frett/fleiri-fylgi-fordaemi-hafnfirdinga

Heilbrigðisráðherra hefur sent bréf til allra sem fara með stjórn stofnana sem heyra undir ráðherra. Þeim tilmælum er beint til stjórnenda að tryggja að í gildi séu aðgerðabundnar jafnréttisáætlanir þar sem fram kemur hvernig komið er í veg fyrir kynbundið ofbeldi og kynferðislega áreitni.

Öll ráðuneytin hafa sent eða munu senda starfsfólk sitt á námskeið hjá Vinnueftirlitinu um kynbundið ofbeldi, kynferðislega áreitni og einelti á vinnu stöðum.

Vinnueftirlitið, sem hefur eftirlit og sinnir fræðslu vegna ofbeldis á vinnustöðum stóð fyrir fundi sem bar yfirskriftina „Áreitni á vinnustöðum, NEI TAKK“. Upptöku frá fundinum má nálgast á slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=CB-ehrwmzMc Á fundinum var samþykkt yfirlýsing http://www.vinnueftirlit.is/annad-efni/viljayfirlysing/ sem atvinnurekendur og félagasamtök eru hvött til að skrifa undir.

Samband atvinnurekenda lét útbúa veggspjöld með sáttmálanum og hvetja öll fyrirtæki í landinu að hengja þau upp á áberandi stað í fyrirtækinu. Hægt er að nálgast veggspjöldin hér http://sa.is/frettatengt/frettir/sattmali-gegn-einelti-areitni-og-ofbeldi

Fræðsla, viðburðir og lausnir

Konur í sviðslistum og kvikmyndaiðnaði stóðu fyrir viðburði í Borgarleikhúsinu þar sem lesnar voru upp #metoo frásagnir þolanda í lok nóvember. Upptöku frá viðburðinum má finna  á slóðinni http://www.visir.is/g/2017171219970

Föstudaginn 5. janúar stóð lögfræðideild Háskólans í Reykjavík  fyrir ráðstefnu um kynferðisofbeldi. Hér má lesa það helsta sem fram fóru á ráðstefnunni https://www.ru.is/haskolinn/frettir/mikilvaegt-ad-tholendur-naudgana-segi-fra

Stjórnvísi og Nolta stóð fyrir vinnufundi með það að markmiði að safna saman hagnýtum hugmyndum sem vinnustaðir geta nýtt sér til að koma í veg fyrir ofbeldi. Helstu niðurstöðu fundarins má finna hér https://www.stjornvisi.is/is/frettir/helstu-nidurstodur-fundarins-metoo-og-hvad-svo

Heilbrigðisvísindasvið Háskóla Íslands hélt Mannréttindadag í byrjun árs þar sem allir fyrsta árs nemar sviðsins sátu fræðslu um kynbundið ofbeldi.

Hluti af árlegum Læknadögum, stærstu læknaráðstefnu á Íslandi, var tileinkaður #metoo. Dagskráin er lokuð öðrum en læknum.

Stjórnmálaflokkarnir héldu sameiginlegan #metoo fund 22. janúar þar sem farið var yfir næstu skref innan stjórnmálanna. Katrín Björg Ríkarðsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, var meðal frummælenda á fundinum. Upptöku er hægt að nálgast hér https://www.youtube.com/watch?time_continue=2&v=rUjlO5Ezb2Q

Stofnun stjórnsýslufræða hélt námskeið í umsjón Kjartans Bjarna Björgvinssonar héraðsdómara undir yfirskriftinni „#metoo og lögin: Hver er réttarstaðan í málum um kynferðislega áreitni?“ Þar fór Kjartan yfir lagalega hlið kynferðisofbeldis, lagalegar skilgreiningar hugtaka og ábyrgð vinnuveitenda í að uppræta ofbeldismál. Námskeiðið verður endurtekið 12. febrúar næstkomandi og eru allar frekari upplýsingar á slóðinni http://stjornsyslustofnun.hi.is/node/1343.

Á döfinni

Í dag, miðvikudaginn 31. janúar, hvetur Félag kvenna í atvinnurekstri fólk til að klæðast svörtu til stuðnings #metoo byltingunni.

Miðvikudaginn 7. febrúar boðar Félag kvenna í atvinnurekstri til ráðstefnu um áhrif #metoo byltingarinnar á fyrirtækjamenningu til framtíðar. Tilgangur ráðstefnunnar er að tryggja að byltingin skili raunverulegum árangri í atvinnulífinu til lengri tíma. https://www.facebook.com/events/410815429347721/

Laugardaginn 10. febrúar boða Heildarsamtök launafólks og Kvenréttindafélag Íslands til þjóðfundar þar sem farið verður yfir næstu skref. Mikilvægt er að skrá sig á viðburðinn. https://www.facebook.com/events/323354761507100/ 

Þriðjudaginn 6. febrúar efnir Ungliðahreyfing ASÍ til pallborðsumræðna um áhrif #metoo byltingarinnar á vinnumarkaðinn og aðgerðir stéttarfélaganna. https://www.facebook.com/events/169348297047775/ 

Starfsmennt býður upp á 12 klst. námskeið fyrir forstöðumenn, mannauðsstjóra, millistjórnendur og starfsmenn þar sem fjallað er um sálfræðilega og félagslega áhrifaþætti er varða vinnu, heilsu, vellíðan og hvatningu. Áherslan er einkum á einelti og kynferðislega áreitni, forvarnir og fyrirbyggjandi ráðstafanir. https://smennt.is/nam-hja-starfsmennt/namskeid/?allotmentid=95d1e187-0421-4506-85bc-ba514ef45024 

Þolendur eru hvattir til að leita til fagaðila með sín mál, ekki síst í ljósi þessarar miklu umræðu um kynbundið ofbeldi í samfélaginu. Bjarkarhlíð tekur t.d. á móti þolendum hvers kyns ofbeldis. Samantekt á upplýsingum um hvert annað er hægt að leita eftir ráðgjöf vegna ofbeldis og lög og skyldur varðanda kynbundið ofbeldi, kynbundna- og kynferðislega áreitni og einelti er hægt að finna hér http://jafnretti.is/jafnretti/?D10cID=ReadNews3&ID=1403&CI=0.


Ljóst er að #metoo byltingin heldur áfram og bendir allt til þess að áhrif hennar séu komin til að vera. Stjórnvöld, sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, íþróttafélög, félagasamtök og fleiri taka nú virkan þátt í að uppræta þá ofbeldismenningu sem viðgengist hefur hvarvetna í samfélaginu.