Miðlað í gegnum meginstrauminn: Ímynd(ir) kvenleika og þegnréttar á Íslandi samtímans 1980-2000

Föstudaginn 23 september ver Guðný Gústafsdóttir doktorsritgerð sína: Miðlað í gegnum meginstrauminn: Ímynd(ir) kvenleika og þegnréttar á Íslandi samtímans 1980-2000.  
Vörnin fer fram í Hátíðasal Háskóla Íslands kl 14:00 og er öllum opin.
Andmælendur eru  dr. Karen Ross, prófessor í kynja- og fjölmiðlafræði við háskólann í Newcastle og dr. Guðný Guðbjörnsdóttir, prófessor í uppeldis- og menntunarfræði, Menntavísindasviði Háskóla Íslands.

Leiðbeinandi var dr. Þorgerður Einarsdóttir, prófessor í kynjafræði og í doktorsnefnd sátu auk Þorgerðar dr. Helga Kristín Hallgrímsdóttir, dósent við háskólann í Viktoría, Kanada og dr. Sigríður Matthíasdóttir, sjálfstætt starfandi sagnfræðingur við Reykjavíkurakademíuna.
Ágrip af rannsókn
Ímynd kvenna á Íslandi samtímans hefur verið samofin kynjajafnrétti. Ímyndin á rætur í sögunni og var á síðustu áratugum styrkt með félagslegum athöfnum, svo sem kosningu Vigdísar Finnbogadóttur sem forseta árið 1980 og framboði Kvennalista til Alþingis. Þegar ímyndin er mátuð við stöðu kvenna kemur í ljós ákveðin mótsögn. Þrátt fyrir framgang kvenna, formlegt kynjajafnrétti, mikla menntun og atvinnuþátttöku, hafa völd og áhrif kvenna í hinu opinbera rými haldist takmörkuð. Í doktorsritgerðinni er leitast við að varpa ljósi á þessa mótsögn með því að greina hugmyndir um kvenleika og þann þegnrétt sem þeim fylgdi í orðræðu tímarita sem gefin voru út á tímabilinu 1980-2000. Ímynd hins kvenlega þegns á Íslandi samtímans er greind með hliðsjón af menningarbundnum, pólitískum og hugmyndafræðilegum áhrifavöldum.


Um doktorsefnið
Guðný Gústafsdóttir er fædd 14 maí 1962 í Neskaupstað. Hún stundaði nám í þýskum nútímabókmenntum, félagsfræði og norrænum bókmenntum við Alberts-Ludwig Universität Freiburg og Freie Universität Berlin í Þýskalandi. Hún lauk diploma í rekstrar- og viðskiptafræði 2001 og MA í kynjafræði  frá Háskóla Íslands 2009. Synir Guðnýjar eru Elís Mar og Gústaf Berg.

 Dr. Baldur Þórhallsson, deildarforseti stjórnar athöfninni sem fer fram í hátíðarsal Aðalbyggingar og er öllum opin.